Gift er tíu ára gamall en hann flúði undan borgarastyrjöldinni í Suður-Súdan til Austur-Kongó. Til þess að komast í skóla varð hann að læra frönsku á eigin spýtur og til þess að fá birtu til að lesa hannaði hann ljós sem er knúið sólarorku. Hann hefur verið efstur í sínum bekk undanfarin þrjú ár en það er öruggt að hann fái að njóta skólagöngu áfram. Hann er eitt þeirra rúmlega sjö milljóna barna sem eru á flótta í heiminum. Yfir helmingur þeirra, 3,7 milljónir, gengur ekki í skóla, að því er segir í nýrri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR.
Draumur Gift er að verða kennari og ástæðan er einföld - þeir hjálpa þeim sem eru með minni þekkingu. En þrátt fyrir að vera afburðanemandi er alls óvíst um framhaldið því hann er á sínu síðasta ári í skólanum. Næsta skólastig (secondary school) er aðeins fyrir fáa útvalda.
Gift kom í Biringi-flóttamannabúðirnar í Austur-Kongó árið 2016. Hann kom þangað með frænda sínum sem er forráðamaður hans eftir að pabbi hans var drepinn í borgarastyrjöldinni. Hann veit ekkert hvar mamma hans er líkt og svo mörg önnur börn sem hafa orðið viðskila við ástvini sína.
Gift man vel eftir fyrsta skóladeginum í Uboko-barnaskólanum þar sem 800 börn voru saman við nám. Þar sem franska er fyrsta tungumálið á þessu svæði fór hann í tíma sem UNHCR bauð upp á og fljótt var ljóst að námið leikur við Gift.
Þrátt fyrir að Gift hafi notið þeirrar gæfu að komast í skóla er svo ekki farið um öll börn sem hafa flúið Suður-Súdan til Kongó því aðeins 4.400 af 12.500 börnum frá Suður-Súdan í Austur-Kongó ganga í skóla. Þegar kemur að unglingastigi er hlutfall þeirra sem ekki ganga í skóla 92%.
Gift óttast að falla í þann hóp því þrátt fyrir góðar gáfur er ekki öruggt að hann verði meðal þeirra heppnu sem fá að halda áfram námi. Hann getur ekki ímyndað sér líf án menntunar. „Það yrði hræðilegt ef ég fengi ekki að fara í unglingaskóla,“ segir hann í skýrslu UNHCR. „Það á að gefa öllum kost á að njóta menntunar.“
Í skýrslu UNHCR, Stepping Up: Refugee Education in Crisis, kemur fram að eftir því sem börn á flótta eru eldri því erfiðara verður fyrir þau að fá aðgang að námi. Aðeins 63% þeirra eru í barnaskóla samanborið við 91% á heimsvísu. Um 84% unglinga í heiminum ganga í skóla á meðan aðeins 24% unglinga á flótta hafa kost á slíkri menntun.
„Skólar gefa flóttafólki ný tækifæri,“ segir Filippo Grandi, framkvæmdastjóri UNHCR: „Við erum að bregðast flóttafólki með því að veita því ekki tækifæri til að bæta við hæfni sína og þekkingu sem það þarf á að halda til þess að fjárfesta í framtíð sinni.“