Þúsundir mótmælenda hafa arkað út á götur í fleiri en 30 breskum borgum í dag. Með mótmælunum vilja þeir lýsa andstöðu sinni við ákvörðun Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, sem lýtur að því að fresta þinghaldi í aðdraganda Brexit, en svo nefnist útganga Breta úr Evrópusambandinu.
Mótmælendur hafa til dæmis lýst andstöðu sinni í Lundúnum, Manchester, Leeds, York og Belfast. Mótmælendur í Lundúnum hafa tafið umferð á stórri umferðargötu í borginni nærri Westminster og kalla þar: „Skammastu þín Boris Johnson“. Þetta kemur fram í frétt BBC.
Lítill hópur sem gengur til stuðnings forsætisráðherranum og gegn mótmælendunum hefur einnig látið í sér heyra í Lundúnum.
Ákvörðun Johnsons um að fresta þingsetu um tíma varð til þess að þingmenn og andstæðingar Brexit án samnings risu upp gegn forsetanum eftir að hann tilkynnti ákvörðunina síðastliðinn miðvikudag.
Ef af frestuninni verður mun það verða til þess að þinginu verður lokað í 23 virka daga. Tímasetning frestunar þinghalds hefur verið gagnrýnd og lengd hennar sömuleiðis þar sem einungis nokkrar vikur eru í eindaga Brexit sem er 31. október.
Þingmenn sem eru á móti ákvörðun forsetans hafa margir hverjir sagt að hún sé til þess fallin að Johnson geti þvingað í gegn Brexit án samnings.
Mótmælin eru skipulögð af hópi andstæðinga Brexit sem kalla sig Another Europe is Possible, eða Önnur Evrópa er möguleg. Hópurinn hefur gefið út að mótmæli séu fyrirhuguð í Amsterdam, Berlín og Riga.
Mótmælendur segjast með aðgerðum sínum vera að vernda lýðræðið. Forsætisráðherra sem ekki hafi verið kosinn lýðræðislega sé með ákvörðun sinni að grípa inn í lýðræðið. Hann sé persónulega að ráðast gegn bresku þjóðinni.
Johnson tók við embætti forsætisráðherra í lok júlí eftir að Theresa May, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði af sér. Hann er þekktur fyrir að setja það ekki fyrir sig að ganga úr Evrópusambandinu án samnings. Þegar þinghaldi er frestað í Bretlandi verða hvorki umræður né atkvæðagreiðslur.