Átta eru í lífshættu eftir skotárás í borgunum Odessa og Midland í gær. Fimm eru látnir og að minnsta kosti 21 er særður.
Þetta er önnur mannskæða skotárásin í Texas á innan við mánuði. Fjórar vikur eru síðan maður skaut 22 til bana í verslun Walmart í El Paso. Árásin í gær er jafnframt 281. fjöldaskotárásin á árinu í Bandaríkjunum.
Árásarmaðurinn sem var að verki í Odessa og Midland er á fertugsaldri. Lögregla skaut hann til bana fyrir utan kvikmyndahús í Odessa en óljóst er hvað honum gekk til. Hann hóf skothríðina um klukkan 15 að staðartíma í gær eftir að tveir lögreglumenn stöðvuðu hann á Midland-þjóðveginum við öryggiseftirlit. Maðurinn skaut að lögreglumönnunum, ók í burtu og hóf að skjóta á fólk af handahófi. Árásarmaðurinn notaði tvö ökutæki en hann stal póstbíl, ásamt því að keyra um á eigin bíl og skjóta á fólk.
Þrír hinna særðu eru lögreglumenn en þeir urðu ekki allir fyrir skoti. Einhverjir þeirra skárust á glerbrotum þegar árásarmaðurinn skaut að lögreglubifreiðum.
Samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsinu í Odessa er rúmlega ársgamalt barn meðal þeirra sem eru í lífshættu eftir árásina.
Ríkissaksóknari í Texas segir í yfirlýsingu að hann hrylli við að verða vitni að svona heimskulegu athæfi. Ríkisstjóri Texas, Greg Abbott, segir að hatur og ofbeldi muni ekki ná yfirhöndinni í Texas. „Við munum sameinast, líkt og Texasbúar gera jafnan, og bregðast þannig við þessum hörmungaratburði.“
Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa verið veittar allar helstu upplýsingar vegna skotárásarinnar og segir hann bandarísku alríkislögregluna, FBI, einnig hafa yfirsýn yfir atburðarásina. Mike Pence varaforseti segir að ríkisstjórnin sé enn staðráðin í að ræða við leiðtoga beggja flokka á þingi til að takast á við það böl sem skotárásir eru í bandarísku samfélagi.