Bankaskattur fjármagnar aukin herútgjöld

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Sænsk stjórnvöld hyggjast auka útgjöld til hermála um fimm milljarða sænskra króna á hverju ári árin 2022-2025. Árið 2025 eiga útgjöld til hermála því að vera 84 milljarðar sænskra króna, jafnvirði um 1.079 milljarða íslenskra króna, 20 milljörðum sænskra meira en þau eru nú.

Magdalena Andersson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, kynnti fyrirætlanirnar á blaðamannafundi í gær, en þar kom fram að til stæði að fjármagna útgjaldaaukninguna með sérstökum bankaskatti. Nákvæm útfærsla skattsins liggur ekki fyrir, en Andersson segir honum ætlað að leggjast sérstaklega á stóra banka og umsvifamikla fjárfesta.

„Þetta er geiri sem græðir stórar fjárhæðir á degi hverjum. Okkar mat er að bankarnir geti lagt meira til samfélagsins en þeir gera nú.“ Áþekkur skattur er til staðar á Íslandi, en hann var lagður á í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Skatthlutfallið er 0,376% og leggst á allar skuldir fjármálafyrirtækja umfram 50 milljarða króna, en til stendur að lækka það í nokkrum skrefum niður í 0,145%.

Meðal þess sem nýta á nýfengið fé hersins í er að setja á stofn sérstaka stríðsdeild og vopnanám í Kristinehamn, en einnig á að fjölga þeim sem sendir eru í herskyldu úr 4.000 í 8.000 á ári.

Segja má að útgjaldaaukningin sé þvert á þróun mála á heimsvísu, því ólíkt því sem einhverjir kynnu að telja hafa útgjöld til hermála farið minnkandi undanfarinn áratug; dregist saman í 98 löndum en aukist í 63, líkt og fram kemur í skýrslu um Friðarvísi Stofnunar um hagsæld og frið (Institue of Economics and Peace’s Global Peace Index).

Áformanna er getið í nýkynntum fjárlögum minnihlutastjórnar Jafnaðarmanna og Græningja, en þau eru unnin í samstarfi við stuðningsflokkana, Frjálslynda og Miðflokkinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert