Komu í veg fyrir frekara mannfall

Bandaríska alríkislögreglan rannsakaði í dag heimili árásarmannsins.
Bandaríska alríkislögreglan rannsakaði í dag heimili árásarmannsins. AFP

Lögreglan í Odessa í Texas greindi frá því í dag að alls hefðu sjö látist í skotárásinni í borgunum Odessa og Midland í gær. Árásarmaðurinn hefði getað skotið mun fleiri ef ekki hefði tekist að stöðva hann fyrir utan kvikmyndahúsið í Odessa, þar sem lögregluþjónn skaut hann til bana.

Árásarmaðurinn hét Seth Aaron Ator. Hann bjó í Odessa og var 36 ára gamall.

Þeir sem létust voru á aldrinum 15 til 57 ára. 22 eru særðir, þar á meðal þrír lögregluþjónar og 17 mánaða stúlka. Hún var skotin í munninn en er á batavegi.

Stöðvaður þegar hann gaf ekki stefnuljós

Ator hóf skotárásina eftir að tveir lög­reglu­menn stöðvuðu hann á Midland-þjóðveg­in­um við ör­ygg­is­eft­ir­lit eftir að árásarmaðurinn gaf ekki stefnuljós. 

Áður en Ator stöðvaði bifreiðina dró hann fram riffil og skaut í átt að lögreglubílnum. Einn lögregluþjónn særðist og upphófst eltingaleikur þar sem Ator stal póstbíl og skaut á flesta þá sem urðu á vegi hans.

Ator lést eftir að hafa skipst á nokkrum skotum við lögregluþjóna fyrir utan kvikmyndahúsið en innandyra var fjöldi fólks.

Lögreglubíll og póstbíll í Odessa í Texas. Árásarmaðurinn stal póstbíl …
Lögreglubíll og póstbíll í Odessa í Texas. Árásarmaðurinn stal póstbíl og skaut á fólk, af handahófi. AFP

Lögregluvarðstjórinn Michael Gerke sagðist ekki geta verið fullviss um hvað árásarmaðurinn ætlaði sér. Hann bætti því hins vegar við að hægt væri að lesa eitthvað út úr því að hann hefði komið að kvikmyndahúsinu.

Sérfræðingur frá bandarísku alríkislögreglunni FBI, Christopher Combs, sagði að ekki væri talið að um hryðjuverk hefði verið að ræða.

Ríkisstjóri Texas þreyttur og sorgmæddur

Þetta er önn­ur mann­skæða skotárás­in í Texas á inn­an við mánuði. Fjór­ar vik­ur eru síðan maður skaut 22 til bana í versl­un Walmart í El Paso. Árás­in í gær er jafn­framt 281. fjölda­skotárás­in á ár­inu í Banda­ríkj­un­um. 

Rík­is­stjóri Texas, Greg Ab­bott, sagðist vera þreyttur á að sækja viðburði þar sem fólk syrgði ástvini í kjölfar skotárásar. „Ég er þreyttur á því að fólk deyi. Of margir íbúar ríkisins syrgja,“ sagði Abbott.

Greg Abbott, ríkisstjóri í Texas, hélt blaðamannafund í dag.
Greg Abbott, ríkisstjóri í Texas, hélt blaðamannafund í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði við fréttamenn í Hvíta húsinu í dag að skotárás gærdagsins breytti ekki neinu varðandi breytingar á byssulöggjöf í Bandaríkjunum.

Eftir árásina í El Paso kallaði Trump eftir flögg­un­ar­kerfi sem myndi heim­ila lög­reglu­yf­ir­völd­um að taka vopn af ein­stak­ling­um sem tald­ir væru hættu­leg­ir sjálf­um sér eða öðrum. Í dag sagði hann að sama hversu strangt eftirlitið væri hefði það ekki komið í veg fyrir neina af árásunum.

FBI býr sig undir næstu skotárás

Combs sagði að þetta væri ekki fyrsta fjöldaskotárásin sem hann og samstarfsfélagar hans hefðu rannsakað.

„Við búum okkur undir næsta árásarmann. Það er sorglegt að segja það en þetta er það sem við virðumst gera,“ sagði Combs um hvað tæki við þegar rannsókn lyki í Odessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert