Rúmlega þúsund manns mótmæltu umdeildri gagnkynhneigðri „gleðigöngu“ (e. straight pride) sem gengin var í Boston í gær. Nokkur hundruð manns gengu í göngunni sem er á vegum samtakanna Super Happy Fun America (SHFA) og fékk hópurinn leyfi fyrir göngunni í júní síðastliðnum.
The Guardian greinir frá þessu en SHFA hefur sagt að gangan sé til þess gerð að vekja athygli á gagnkynhneigða samfélaginu.
Öfgahægrimaðurinn Milo Yiannopoulos leiddi gönguna. Hann er samkynhneigður íhaldsmaður og ávarpaði gönguna með orðunum „Bætið S við LGBTQ!“ en LGBTQ stendur fyrir lesbian, gay, bisexual og transgender og er skammstöfun sem gjarnan er notuð af hinsegin samfélaginu.
Hundruð lögreglumanna vörðu gönguna en mótmælendur hreyttu óorðum í göngufólk, öskruðu meðal annars „nasistaúrþvætti“. Göngunni lauk í ráðhúsi Boston þar sem efnt var til eins konar ráðstefnu.
Þrátt fyrir að SHFA hafi neitað því staðfastlega að vera á móti hinsegin samfélaginu höfðu samtökin fengið til sín nokkra ræðumenn sem kvörtuðu undan „hinseginvæddum námskrám“ í opinbera skólakerfinu og börnum sem væru hinsegin.
Sumir ræðumannanna hafa tengsl við öfgahægrisamtökin the Proud Boys sem hafa hvatt til ofbeldis. Einn skipuleggjenda göngunnar, Mark Sahady, stóð fyrir ráðstefnu fyrir hvíta þjóðernissinna í Boston árið 2017. Hann er tengdur inn í öfgahægrihópinn Resist Marxism.
Ýmsir meðlimir SHFA báru „Make America Great Again“-derhúfur sem hafa helst verið tengdar við Donald Trump Bandaríkjaforseta og klæddust bolum með áletruninni: „Hvernig get ég móðgað þig?“
36 voru handteknir, að mestu mótmælendur göngunnar. Fjórir lögreglumenn slösuðust að sögn lögreglu.
Alexandria Ocasio-Cortez og Ayanna Pressley, þingkonur demókrata, hafa hvatt fólk til að leggja pening af mörkum til þeirra sem handteknir hafa verið. Það sé ein leið til að sýna stuðning við hinsegin samfélagið í verki.