Fimm hið minnsta eru látnir eftir að fellibylurinn Dorian fór yfir Abacos-eyjar, sem eru hluti af Bahamaeyjaklasanum. AFP-fréttaveitan hefur þetta eftir ferðamálaráðuneyti Bahama, sem segir björgunaraðgerðir þegar hafnar á þeim stöðum þar sem það sé talið óhætt.
Dorian var fimmta stigs fellibylur er hann fór yfir Abacos en það er hæsta stig fellibyls. AFP hefur eftir forsvarsmönnum Rauða krossins á staðnum að óttast sé að um 13.000 hús hafi skemmst eða eyðilagst. „Það er ekki víst að það sé lengur neitt hreint vatn fáanlegt á Abaco vegna sjávarflóða sem hafa flætt yfir vatnsból,“ sagði Matthew Cochrane, talsmaður Rauða krossins, í samtali við BBC.
Hubert Minnis, forsætisráðherra Bahamaeyja, sagði í dag þær fréttir sem borist hefðu frá Abaco gefa til kynna áður óþekkta eyðileggingu. Talið er að þær byggðir sem liggja lágt hafi orðið illa úti í flóðum og ofsafengnum vindum.
Vitni sem dvelur á hóteli á dvalarleyfisstað á Abaco sagði við Reuters að vindurinn hefði rifið hlera af gluggum hótelsins og hluta þaksins. Þá væri svæðið nú umlukt miklu stöðuvatni.
Dorian er öflugasti fellibylur sem farið hefur yfir Bahamaeyjar frá því skráningar hófust. Myndir sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum hafa sýnt sjávarflóð, bíla á hvolfi og tré sem ýmist hafa brotnað eða rifnað upp með rótum. Eins hefur fólk sést flýja upp á húsþök undan flóðavatninu.
Um 17.000 manns búa að staðaldri á Abacos-eyjum og er ekki ljóst hversu margir þeirra hafa hunsað skipanir um brottflutning.
Dorian nú komin niður í fjórða stigs fellibyl. Hann er enn staddur yfir Bahama og er enn nógu öflugur til að valda umtalsverðri eyðileggingu. Sagði Cochrane hjálparstarfsmenn búast við „verulegri þörf fyrir aðstoð“ á Bahamaeyjum þegar fellibylurinn hefur lokið ferð sinni um eyjarnar. Fréttir hafa þegar borist af flóðum á hlutum Grand Bahama-eyjarinnar og hafa fjölmiðlar á staðnum greint frá því að alþjóðaflugvöllurinn og sjúkrahúsið á eyjunni sé undir vatni.
Byggingar í Freeport-hverfinu á Grand Bahama-eyju eru nú umluktar tæplega tveggja metra háu vatni. „Þær líta út eins og bátar ofan á vatni,“ hefur Reuters eftir Rosu Knowles-Bain, einum íbúanna, sem flúði í neyðarskýli fyrir tveimur dögum.
„Getur einhver hjálpað mér. Þetta er Kendra Williams. Ég bý í Heritage. Við erum á kafi í vatni og erum uppundir loftinu. Getur einhver hjálpað mér? Ég, sex barnabörn mín og sonur, við erum í loftinu.“ AFP segir Yasmin Rigby, íbúa í Freepoint, hafa áframsent þessi skilaboð, en að sögn yfirvalda á Bahamaeyjum berst nú fjöldi slíkra hjálparbeiðna.
„Það er mikið af örvæntingarfullu fólki sem hringir inn,“ sagði Don Cornish hjá almannavörnum Bahamaeyja.
„Það hefur miklar áhyggjur af flóðinu. Við vitum af fólki sem reynir í örvæntingu að komast úr þessum aðstæðum af því að vatnshæðin er orðin það mikil á heimili þess."
Bandaríska fellibyljamiðstöðin NHC sagði nú í kvöld Dorian enn teljast „verulega hættulegan“ og halda áfram að valda „lífshættulegum aðstæðum“ á Bahamaeyjum. Bað NHC íbúa eyjanna að halda kyrru fyrir í skýlum þar til fellibylurinn væri genginn yfir.
Dorian mun áfram flokkast sem „öflugur fellibylur næstu daga“, en vindhraði hans er nú 250 km/klst.
Að sögn NHC þarf Dorian ekki heldur að breyta nema lítillega um stefnu til að halda beint yfir austurströnd Flórída, en nú þegar er búist við að hann valdi þar miklu sjávarflóði og hættulegum vindum næstu daga.
Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í Flórída, Georgíu og Norður- og Suður-Karólínu en þangað er Dorian væntanlegur á næstu dögum.