Íbúar á norðurhluta Bahamaeyja hafa sent beiðni um hjálp en fellibylurinn Dorian er enn yfir eyjunum. Einhverjir eru fastir á þökum húsa sinna og þrátt fyrir að dregið hafi úr styrk fellibyljarins er þessu ekki lokið.
Dorian er nú flokkaður sem þriðja stigs fellibylur en náði um helgina fimmta stigi. Að minnsta kosti fimm eru látnir á Abaco-eyjum en fellibylurinn var mun kraftmeiri en hann er nú.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í þremur ríkjum Bandaríkjanna; Flórída, Georgíu og Suður-Karólínu. Talið er að Dorian muni fara „hættulega nálægt“ austurströnd Flórída seint í kvöld. Þaðan muni hann fara yfir austasta hluta Georgíu og Suður-Karólínu á miðvikudag og fimmtudag.
Þrátt fyrir að dregið hafi úr styrk Dorian varar bandaríska fellibyljamiðstöðin NHC við því að vindhraði sé enn mikill á Bahamaeyjum, eða um 56 metrar á sekúndu. Fólk er því hvatt til að halda kyrru fyrir ef það er í öruggu skjóli.
Fréttamiðilinn Bahamas Press birti myndskeið á Twitter þar sem sjá má spítala í Freeport á floti sem varð til þess að sjúklingar neyddust til að yfirgefa spítalann.
Floodwaters at the Rand Memorial Hospital in Freeport Grand Bahama - Emergency Room. Hurricane Dorian forced patients to evacuate the hospital. #DORIAN #HOSPITAL #hurricane pic.twitter.com/cUmxEsjn2Q
— Bahamas Press (@Bahamaspress) September 3, 2019
„Fólk hélt að það væri öruggt en óskar nú eftir hjálp,“ sagði Yasmin Rigby, íbúi á eyjunum.
Rauði krossinn óttast að lítið sé um hreint vatn á Abaco-eyjum eftir flóðin í kjölfar fellibyljarins. Að þeirra sögn eru að minnsta kosti 13 þúsund hús ónýt eða mikið skemmd eftir vonskuveðrið síðustu daga.
Hægt er að fylgjast með Dorian hér.