Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, lendir á Keflavíkurflugvelli í hádeginu í dag. Hann stoppar stutt við, einungis um sjö klukkutíma, en yfirvofandi koma hans ætti ekki að hafa farið framhjá landsmönnum. En hver er þessi Mike Pence?
Michael Richard Pence fæddist í borginni Columbus í Indiana 7. júní 1959 sem gerir hann sextugan. Pence á rætur að rekja til Írlands, foreldrar hans eru kaþólikkar og demókratar og var Pence alinn upp sem slíkur. Foreldrar hans voru virkir í starfi Demókrataflokksins og sinnti Pence sjálfboðaliðastarfi fyrir flokkinn árið 1976 og kaus sitjandi forseta, Jimmy Carter, í forsetakosningunum 1980 sem laut í lægra haldi fyrir Ronald Reagan.
Í dag fetar Pence í fótspor Reagans, vissulega ekki sem forseti heldur sem varaforseti, þegar hann leggur leið sína í Höfða þar sem leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjevs, leiðtoga Sovétríkjanna, fór fram fyrir 33 árum. Í Höfða í dag mun Pence hitta forseta Íslands, utanríkisráðherra og borgarstjóra, svo fáeinir séu nefndir.
Á háskólaárunum snerist Pence hugur og gekk í evangelísku kirkjuna, í óþökk móður sinnar. En það var ekki bara trúin sem breyttist, hið sama er að segja um stjórnmálaskoðanirnar. Pence færðist lengra til hægri og var það skynsamleg íhaldsstefna Reagans sem heillaði.
„Ég er kristinn, íhaldssamur og repúblikani, í þessari röð.“ Með þessum orðum lýsti Pence sér á stjórnmálaráðstefnu íhaldsmanna árið 2010.
Leið Pence á svið stjórnmálanna var ekki bein og greið. Hann útskrifaðist úr lögfræði árið 1986. Tveimur árum síðar hófst útvarpsferill hans þar sem hann stjórnaði stjórnmálaumræðuþætti á útvarpsstöð í Indiana. Árið 1992 var hann kominn með daglegan þátt: The Mike Pence Show og þegar best lét var þættinum útvarpað samtímis á 18 útvarpsstöðvum í Indiana.
Árið 1999 batt Pence enda á útvarpsferilinn til að einbeita sér að stjórnmálaferlinum eftir tvær misheppnaðar tilraunir til að komast inn á þing. Pence náði kjöri og tók sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Indiana árið 2001. Síðan þá hefur leiðin verið upp á við og var Pence meðal annars nefndur sem hugsanlegur frambjóðandi Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum 2008 og 2012.
Pence varð ríkisstjóri Indiana árið 2012. Umdeildasta lagasetning sem hann samþykkti í því embætti er án efa lög um endurreisn trúfrelsis (Religious Freedom Restoration Act, RFRA). Lögin samþykkti hann árið 2015 og heimila þau einstaklingum og fyrirtækjum að meina ákveðnu fólki aðgengi að stöðum í eigu þeirra vegna trúarástæðna. Lögin þóttu bera merki um mismunun, ekki síst þegar veitingastaðaeigendur nýtt lögin til að neita samkynhneigðum um þjónustu þar sem samkynhneigð stríddi gegn trú eigendanna. Lagasetningin vakti athygli víða um Bandaríkin og stór fyrirtæki á borð við Apple hótuðu að hætta að stunda viðskipti sín í ríkinu.
Pence fullyrti í fjölmiðlum að fólk misskildi lögin, þau snerust ekki um mismunum. Útskýringar Pence fengu lítinn hljómgrunn og lögin voru að lokum dregin til baka.
Eiginkona Pence er Karen Pence, kennari frá Kansas. Þau gengu í hjónaband árið 1985 og hafa nánast verið óaðskiljanleg síðan. Íhaldssemin er líklega það sem sameinar hjónin hvað mest, en hún studdi hann í lagasetningunni um trúfrelsi í Indiana og deilir skoðunum hans um hjónaband samkynhneigðra, sem þau eru bæði andvíg.
Mike og Karen eru svo náin, að honum dettur ekki í hug að snæða kvöldverð með konu sem er ekki eiginkona hans, að því er fram kom í viðtali við hann árið 2002. Þá neytir hann ekki áfengis í samkvæmi nema með konu sína sér við hlið.
Val Trumps á Pence sem varafosetaefni kom töluvert á óvart og telja sumir að sterkt og íhaldssamt hjónaband Mikes og Karenar hafði verið meðal þess sem ráðgjafar hins þrígifta Donalds Trumps höfðu í huga við valið.
Demókratinn sem varð repúblikani lendir í Keflavík klukkan 12:45. Stoppið verður stutt, aðeins sjö tímar. Íslenska lögreglan og bandarískar öryggissveitir verða með gríðarlegan viðbúnað í tengslum við heimsóknina. Mun meiri en sést hefur hér á landi í langan tíma.
Ekki eru allir hrifnir af heimsókn varaforsetans og boðað var til mótmæla stuttu eftir að heimsókn hans var staðfest. Ellefu félagasamtök hafa boðað til mótmæla á Austurvelli síðar í dag undir yfirskriftinni „Partý gegn Pence“. Mótmælin beinast að stefnu Trump-stjórnarinnar á ýmsum sviðum, svo sem í friðar- og afvopnunarmálum, kvenfrelsismálum, málefnum hinseginfólks, á sviði umhverfisverndar og framkomu við flóttafólk.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur sagt að viðskipti verði helsta umræðuefni heimsóknarinnar, en fundinum í Höfða í dag hefur verið lýst sem málþingi um viðskipti milli ríkjanna tveggja, auk fundar með forseta Íslands og utanríkisráðherra.
Afar líklegt má telja að varaforsetinn muni einnig vilja ræða öryggis- og varnarmál við íslenska ráðamenn, en viðvera Bandaríkjahers hér við land hefur sl. vikur og mánuði aukist mjög.
Pence hefur verið á faraldsfæti upp á síðkastið og flýgur ásamt eiginkonu sinni til Íslands frá Írlandi, þar sem þau hafa dvalið síðustu tvo daga.
Heimsóknin til Íslands verður mun styttri líkt og komið hefur fram, aðeins sjö klukkutímar. Eftir fund sinn í Keflavík með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra flýgur Pence til Bretlands þar sem samskipti Bandaríkjanna og Bretlands eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verða meðal umræðuefna. Þaðan liggur leið hans svo aftur til Írlands þar sem hann mun dvelja um helgina í boði Leos Varadkars, forsætisráðherra Írlands.