Sjö eru látnir á Bahamaeyjum eftir að fellibylurinn Dorian fór þar yfir og eyðileggingin er gríðarleg. „Sumir hafa misst allt. Heimili sín, möguleika á samgöngum, rekstri. Þeir eiga bókstaflega ekkert,“ segir Nathaniel Robinson sóknarprestur.
Dregið hefur úr styrk Dorian en þrátt fyrir það er mikil hætta talin á ferðum þegar fellibylurinn kemur að landi á suðausturströnd Bandaríkjanna.
Forsætisráðherra Bahamaeyja, Hubert Minnis, segir að fellibylurinn Dorian sé með alvarlegustu náttúruhamförum sem landið hefur staðið frammi fyrir. Hann óttast að fleiri hafi látist. „Við getum átt von á að dánartalan hækki þar sem þetta eru aðeins bráðabirgðaupplýsingar,“ sagði Minnis á fundi með blaðamönnum í gærkvöldi.
Á sama tíma og Dorian hverfur á braut kemur eyðileggingin og tjónið í ljós. Howard Armstrong sem er krabbaveiðimaður lýsti flóðbylgjunni sem gekk yfir heimili hans en hann segir að hún hafi verið sex metrar hið minnsta. Þau hafi gert allt rétt í fyrstu en þegar á leið var eins og húsið hefði lent í þvottavél. Rætt var við Armstrong í fréttum CNN.
„Eiginkona mín ofkældist þar sem hún stóð ofan á eldhússkápunum þangað til að þeir gáfu sig. Ég var hjá henni og hún drukknaði hjá mér,“ segir Armstrong sem slapp naumlega.
Myndir frá Great Abaco Island sýna eyðileggingu, hundruð heimila án þaks, bíla liggja á hvolfi eins og hráviði og rusl úti um allt.
Flugbrautirnar á alþjóðlega flugvellinum í Freeport, sem er stærsta borg eyjanna, eru undir vatni sem gerir björgunarstarf erfiðara en annars væri. Sjúkrahúsið er einnig á floti og hafa sjúklingar neyðst til þess að yfirgefa það og koma sér í neyðarskýli. Bandaríska strandgæslan hefur sent þyrlur á vettvang og eru áhafnir þeirra að reyna að bjarga fólki sem er innilokað á heimilum sínum.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur beðið þjóð sína að sofna ekki á verðinum því þrátt fyrir að dregið hafi úr styrk Dorian getur eyðileggingin orðið gífurleg. Um eitt í nótt mældist vindhraði Dorian 49 metrar á sekúndu samkvæmt upplýsingum frá bandarísku fellibyljamiðstöðinni.