Brexit-frumvarp í lávarðadeildina

Ríkisstjórn Bretlands hefur sent frumvarp til laga, sem ætlað er að koma í veg fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án samnings, til lávarðadeildarinnar. Þar verður það afgreitt úr deild á morgun.

Neðri deild þingsins í Bretlandi samþykkti í gær frumvarp til laga um að Boris Johnson forsætisráðherra bæri að óska eftir því að útgöngu landsins úr Evrópusambandinu yrði frestað um þrjá mánuði ef ekki næst nýtt samkomulag um hana við leiðtoga ESB. Tillaga Johnsons um að boða til kosninga 15. október fékk ekki tilskilinn meirihluta.

Brexit-frumvarpið var samþykkt með 327 atkvæðum gegn 299 í neðri deildinni og gert er ráð fyrir því að lávarðadeildin afgreiði það á næstu dögum. Talið er að meirihluti lávarðadeildarinnar styðji frumvarpið en andstæðingar þess geta tafið afgreiðsluna. Samþykki lávarðadeildin breytingar á frumvarpinu þarf neðri deildin að taka það fyrir aftur.

Talið var að stuðningsmenn brexit myndu tefja afgreiðslu frumvarpsins með málþófi en tilkynnt var að frumvarpið yrði tekið fyrir í lávarðadeildinni í nótt eftir að leiðtogar Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins í lávarðadeildinni höfðu setið á fundi um málið fram á nótt.  

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert