Fellibylurinn Dorian er nú við strandlengju Karólínuríkjanna á leið sinni norður eftir og er á annað hundrað þúsund manns nú án rafmagns. Dorian er nú orðinn þriðja stigs fellibylur á ný, eftir að hafa farið tímabundið niður í annað stig í gær og er hann talinn geta valdið „lífshættulegum flóðum“ við austurströnd Bandaríkjanna.
Dorian olli gífurlegri eyðileggingu á Bahamaeyjum og kostaði 20 manns lífið hið minnsta að sögn Huberts Minnis, forsætisráðherra eyjanna.
Íbúar í Georgíui og Virginíu hafa verið hvattir til að hlíta ráðleggingum almannavarna, en vindhraði fellibylsins er nú 185 km/klst. Þegar Dorian var fimmta stigs fellibylur á ferð sinni yfir Abaco-eyjarnar, sem eru hluti Bahama, var vindhraði hans 298 km/klst en Dorian var tvo daga yfir Bahamaeyjum.
Minnis hefur sagt fellibylinn vera „eina mestu erfiðleika sem þjóðin hafi staðið frammi fyrir í sögu eyjanna“. Hann hefur jafnframt sagst búast við að tala látinna eigi eftir að hækka enn frekar.
Stór landsvæði á Bahama eru enn óaðgengileg björgunarsveitum og er áhersla enn lögð á að koma fólki á brott. Það þýðir, að sögn BBC, að umfang eyðileggingarinnar liggur enn ekki að fullu fyrir.
Mark Lowcock, varaformaður mannúðarmála og neyðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði í samtali við Guardian að stofnunin teldi um 70.000 manns á norðurhluta eyjanna þurfa á aðstoð að halda.
Hjálparstarfsfólk hefur sagt verkið sem við blasi gífurlega umfangsmikið, bæði vegna umfangs eyðileggingarinnar og vegna þess hve afskekktar eyjarnar eru. Þar sem enn hefur ekki tekist að finna ferskvatnssvæði á þeim svæðum sem aðgengi er að hafa hjálparstarfsmenn ekki getað komið sér upp aðstöðu til að dvelja á Abacos.
Bandaríska strandgæslan hafði síðdegis í gær bjargað 114 manns, en áður hafði talsmaður gæslunnar greint Guardian frá því að á þriðjudagskvöld hefðu sex björgunarþyrlur náð að bjarga 60 manns sem voru alvarlega slasaðir.
Keith Webb, sem er þyrluflugmaður hjá konunglega breska sjóhernum, sagði áhöfn sína hafa bjargað sjö vikna gamalli stúlku sem var með alvarlega blóðeitrun eftir hörmungarnar sem Dorian olli. Þá tókst þeim einnig að bjarga tveimur börnum til viðbótar, sex og sjö ára, sem þjáðust af ofkælingu.
Bahamabúar sem fluttir hafa verið á brott hafa þá greint frá því að þeir hafi verið matarlausir í nokkra daga og einn sagði frá því að hann hefði horft á nágranna sinn fá hjartaáfall og deyja.
Líkt og áður sagði er Dorian nú við strendur Karólínuríkjanna og hefur bandaríska fellibyljamiðstöðin NHC sagt líklegt að „fellibyljaaðstæður myndist yfir hluta svæðisins síðar í dag“. Búist er við að Dorian breyti um stefnu síðdegis og vaxi þá að styrk er hann heldur í norðaustur og er búist við að hann verði kominn yfir Norður-Karólínu í nótt eða á morgun.
Þegar hafa borist fréttir af rafmagnsleysi og segir CNN nú rúmlega 167.000 manns í Georgíu og Suður-Karólínu án rafmagns. Stöðugt hefur fjölgað í hópi rafmagnslausra í morgun, en meirihluti þeirra er þó í Suður-Karólínu og eru þar sagðir vera 154.000 án rafmagns.
Á samfélagsmiðlum hafa svo verið birtar myndir af flóðum í miðbæ Charleston í Suður-Karólínu.
Talið er að grunnvatn kunni að hækka um allt að 2,4 metra á svæðum við strönd Suður-Karólínu, en búist er við úrhellisrigningu á svæðinu næstu daga.
„Tíminn er á þrotum,“ sagði Henry McMasters, ríkisstjóri Suður-Karólínu, við fjölmiðla. Hefur rúmlega 2,2 milljónum manna við strandlengju ríkjanna verið gert að yfirgefa heimili sín.