Ákvörðun Johnsons lögmæt

Kaupsýslukonan Gina Miller les upp yfirlýsingu sína í dag.
Kaupsýslukonan Gina Miller les upp yfirlýsingu sína í dag. AFP

Dómstóll í London, höfuðborg Bretlands, hefur vísað frá dómsmáli sem höfðað var til þess að hnekkja ákvörðun Boris Johnsons, forsætisráðherra Betlands, um að ljúka yfirstandandi þingi 12. september og að nýtt þing kæmi saman um miðjan október.

Málið var höfðað af hópi fólks undir forystu kaupsýslukonunnar Ginu Miller en John Major, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, var á meðal þeirra sem studdu málshöfðunina. Telur hópurinn ákvörðunina fara gegn óritaðri stjórnarskrá Bretlands.

Dómarinn sem kvað upp dóminn, Ian Burnett, sagði að ekki væri annað hægt en að vísa málinu frá en hins vegar hefði verið fallist á að heimila áfrýjun þeirrar niðurstöðu til Hæstaréttar Bretlands. Hafa málshefjendur ákveðið að áfrýja málinu.

Málið verður tekið fyrir af Hæstarétti Bretlands 17. september. Miller las upp yfirlýsingu fyrir utan dómshúsið, eftir að dómurinn lá fyrir, þar sem málshefjendur teldu sig fulltrúa allra Breta, bæði í dag og kynslóða framtíðarinnar, auk fulltrúalýðræðisins.

Dómstóll í Skotlandi hafði áður komist að þeirri niðurstöðu fyrr í þessum mánuði að ákvörðun Johnsons væri ekki ólögmæt í dómsmáli sem 75 þingmenn úr ýmsum stjórnmálaflokkum höfðuðu vegna ákvörðunar forsætisráðherrans.

Fjallað er um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert