Robert Mugabe látinn

00:00
00:00

Robert Muga­be, fyrsti for­seti Simba­bve eft­ir að landið fékk sjálf­stæði, er lát­inn, 95 ára að aldri.
Hann hafði glímt við veik­indi í ein­hvern tíma og dvalið á sjúkra­húsi í Singa­púr frá því í apríl. Hann var hrak­inn frá völd­um eft­ir vald­arán í nóv­em­ber 2017 eft­ir að hafa verið við völd í meira en þrjá ára­tugi. 

Robert Mugabe á níræðisafmælinu.
Robert Muga­be á níræðisaf­mæl­inu. AFP

Eft­ir að Muga­be neydd­ist til þess að fara frá skrifaði Bogi Þór Ara­son, blaðamaður á Morg­un­blaðinu um­fjöll­un í blaðið um Muga­be:

„Móðir Roberts litla trúði því að hann væri heil­agt barn. Hún taldi að prest­ur­inn henn­ar hefði fært henni þau skila­boð frá Guði að son­ur henn­ar yrði mik­ill leiðtogi þegar fram liðu stund­ir.

Robert litli var feim­inn og ein­förull pilt­ur. Hann undi sér við að lesa bæk­ur dægrin löng þegar hin börn­in léku sér. Draum­ur móður hans um að hann yrði virt­ur leiðtogi rætt­ist að nokkru leyti síðar á æv­inni. Hann var um hríð von­ar­stjarna margra Afr­íku­manna eft­ir að hafa leitt þjóð sína til frels­is og átt stór­an þátt í því að leysa hana und­an kúg­un hvíta minni­hlut­ans í heimalandi sínu, Simba­bve. Draum­ur­inn varð síðar að mar­tröð fyr­ir þjóð hans.

 Mömmustrák­ur­inn Muga­be

Robert Gabriel Muga­be fædd­ist 21. fe­brú­ar 1924 ná­lægt trú­boðsstöð jesúíta í Kutuma í Simba­bve, sem hét þá Suður-Ródesía og var ný­lenda Breta. Faðir hans, Gabrí­el, var smiður, ættaður norðan úr grann­rík­inu Mala­ví, en móðir hans, Bona, var kom­in af shóna-fólki sem er stærsti þjóðern­is­hóp­ur Simba­bve. Þau eignuðust sex börn og Robert Muga­be var þriðji elst­ur. Tveir eldri bræður hans dóu ung­ir.

Straum­hvörf urðu í lífi Roberts litla þegar elsti bróðir hans dó. Faðir hans yf­ir­gaf þá fjöl­skyld­una og fór til næst­stærstu borg­ar lands­ins, Bulawayo, þar sem hann fékk vinnu við smíðar. Hann kvænt­ist þar ann­arri konu og eignaðist með henni þrjú börn. Þessi „svik“ heim­il­is­föður­ins voru reiðarslag fyr­ir móður Roberts litla. Hún brotnaði niður og megnaði ekki að ala upp börn­in fjög­ur án hjálp­ar. Robert var elst­ur þeirra og þótt hann væri aðeins tíu ára að aldri kom það í hlut hans að hlaupa í skarðið fyr­ir föður sinn og elsta bróður­inn. Þar með var hann svipt­ur æsk­unni og blá­köld al­vara lífs­ins tók við.

Elsti bróðir Roberts Muga­be þótti mjög efni­legt barn og var auga­steinn móður sinn­ar. Eft­ir að hann dó tók hún að dekra við Robert sem hún taldi að Guð hefði valið til að verða stór­menni.

Bona var rammkaþólsk kona og ætlaði sér að verða nunna þegar hún kom til Kutuma á ung­lings­aldri. Hún féll hins veg­ar fyr­ir Gabrí­el, varð ófrísk og skírði barnið í höfuðið á öðrum erkiengli, Mík­ael. Hún hafði beðið til Guðs að elsti son­ur­inn yrði prest­ur en þegar hann dó batt hún von­ir sín­ar við Robert litla. Ábyrgðin sem hann taldi sig bera á vel­ferð móður sinn­ar lagðist þungt á þenn­an feimna og viðkvæma pilt sem taldi sig verða að upp­fylla vænt­ing­arn­ar sem hún gerði til hans. Þegar hún tók að fara með hann í mess­ur varð hann næst­um eins trú­ræk­inn og hún.

Robert litli dáði móður sína en var reiður út í föður sinn sem sinnti ekk­ert fjöl­skyld­unni, að sögn Donato Muga­be (1926-2007), bróður Roberts. Hann gat ekki fyr­ir­gefið föður sín­um svik­in og þján­ing­arn­ar sem hann olli fjöl­skyld­unni.

Robert fann hugg­un í lestri bóka. Hann var mjög al­vöru­gefið og ein­rænt barn, ólíkt bróður sín­um og tveim­ur systr­um þeirra sem voru yngri. „Hann var þannig gerður að hann hafði eng­an áhuga á að eiga marga vini,“ sagði Donato Muga­be. „Bæk­urn­ar voru einu vin­ir hans... Ég gat hlaupið hratt en Robert ekki: hann var latur, var bara alltaf að lesa.“

Hann var einnig ólík­ur systkin­um sín­um að því leyti að hann naut þess að vera í skól­an­um. Þau bjuggu ná­lægt skóla sem jesúít­ar stofnuðu fyr­ir drengi á aldr­in­um 12 til 18 ára. Robert gat farið þangað hvenær sem hann vildi og skóla­stjór­inn, írski prest­ur­inn Jerome O‘Hea, fékk mikið álit á þess­um bók­hneigða pilti.

„Mamma sagði okk­ur að O‘Hea hefði sagt henni að Robert yrði mik­il­væg­ur maður, leiðtogi,“ sagði Donato. „Mamma trúði því að prest­ur­inn hefði komið með þessi skila­boð frá Guði; hún tók þetta mjög al­var­lega... Hún leit á hann sem heil­agt barn og vildi að hann yrði prest­ur.“

Móðir Roberts Muga­be hneigðist til þung­lynd­is áður en hún missti eig­in­mann­inn og frumb­urð sinn, ef marka má fyrr­ver­andi kenn­ara í heima­bæ hans. Hann seg­ir O‘Hea alltaf hafa fylgst með henni og börn­um henn­ar vegna þess að hann hafi vitað af þung­lyndi henn­ar.

O‘Hea taldi að Robert litli væri óvenju­leg­um gáf­um gædd­ur, fylgd­ist grannt með námi hans og sá til þess að hann yrði færður upp um bekk um leið og hann þótti til­bú­inn til þess. Robert var því alltaf yngri og smærri vexti en bekkjar­bræður hans. Það ýtti und­ir van­mátt­ar­kennd hans á sama tíma og móðir hans og O‘Hea sáðu fræj­um sjálfs­dýrk­un­ar.

Robert lagði sig í fram­króka við að þókn­ast móður sinni í öllu og standa sig vel til að fá hrós frá O‘Hea. Skóla­bræður og systkin hans öf­unduðu hann þegar hon­um var hyglað og gerðu oft grín að hon­um, kölluðu hann mömmustrák og rag­geit.

Dá­lætið sem móðir Roberts hafði á hon­um var af­brigðilegt að mati Geor­ge Kahari, ætt­ingja hans, skóla­bróður og fyrr­ver­andi pró­fess­ors í fé­lags­fræði. Kahari tel­ur að móðir Roberts Muga­be hafi stuðlað að ósveigj­an­leik­an­um sem ein­kenndi fram­göngu hans síðar á æv­inni. „Þegar hann hef­ur tekið af­stöðu verður henni ekki hnikað. Robert ól til að mynda með sér sjúk­legt hat­ur á föður sín­um og það breytt­ist aldrei,“ seg­ir Kahari. Hann tel­ur að með því að setja Robert á of háan stall hafi móðir hans óvilj­andi orðið þess vald­andi að hann varð ut­an­veltu meðal jafn­aldra sinna. Hún hafi þannig ýtt und­ir „hræðilega van­meta­kennd sem hann fel­ur á bak við mælsku sína enn þann dag í dag“.

Stríðni jafn­aldr­anna virðist aðeins hafa hert Robert í þeim ásetn­ingi að skara fram úr í nám­inu. Hann ein­setti sér að sýna þeim sem stríddu hon­um að hann væri þeim æðri og yrði að lok­um kóng­ur í ríki sínu.

Fékk sjö há­skóla­gráður

Robert Muga­be hóf kennslu­störf í barna­skóla til að fram­fleyta fjöl­skyld­unni þegar hann var sautján ára. Hann fór frá heima­bæn­um árið 1945, 21 árs að aldri, staðráðinn í því að afla sér eins mik­ill­ar há­skóla­mennt­un­ar og mögu­legt væri. Eft­ir að hafa kennt í skól­um í heima­land­inu fékk hann styrk til náms í Fort Hare-há­skóla í Suður-Afr­íku þar sem hann fékk fyrstu há­skóla­gráðurn­ar, í sagn­fræði og ensk­um bók­mennt­um. Hann út­skrifaðist þaðan árið 1951 og hélt hann nám­inu áfram í Simba­bve og Tans­an­íu. Muga­be fékk alls sjö há­skóla­gráður, flest­ar þeirra í fjar­námi á veg­um Suður-Afr­íku­há­skóla (Un­isa, stærsta há­skóla Afr­íku) og Lund­úna­há­skóla.

 Muga­be var boðið í starfs­nám fyr­ir kenn­ara í Gana eft­ir að landið fékk sjálf­stæði árið 1957. Þar kynnt­ist hann stóru ást­inni í lífi sínu – kennslu­kon­unni Sally Ha­yfron – og þau átt­ust árið 1961.

Muga­be-hjón­in voru mjög náin og talið er að Sally hafi verið eini vin­ur hans í raun. Hún dáði eig­in­mann sinn og segja má að hún hafi gengið hon­um í móðurstað – tekið við þeirri köll­un móður­inn­ar að hefja hann til skýj­anna. Hún lést árið 1992.

Robert Mugabe og Fidel Castro.
Robert Muga­be og Fidel Castro. AFP

 Álit­inn þjóðhetja

Muga­be sneri aft­ur til heima­lands­ins árið 1960 og haslaði sér þá völl í stjórn­mál­un­um. Hann gekk til liðs við þjóðfrels­is­hreyf­ing­una ZAPU sem var und­ir for­ystu verka­lýðsleiðtog­ans Jos­hua Nkomo. Sú hreyf­ing klofnaði og Muga­be gekk í klofn­ings­hreyf­ing­una ZANU árið 1963. Hann var hand­tek­inn árið eft­ir ásamt fleiri for­ystu­mönn­um hreyf­ing­anna tveggja. Næstu tíu árin var hon­um haldið í fang­elsi.

 Í fang­els­inu nam Muga­be lög­fræði og lauk tveim­ur af há­skóla­gráðunum sjö í fjar­námi. Hann sýndi einnig leiðtoga­hæfi­leika í fang­els­inu, stappaði stál­inu í fé­laga sína og hjálpaði þeim að nota tím­ann til að mennta sig í stað þess að eyða hon­um til einskis.

Muga­be var kjör­inn leiðtogi flokks síns, ZANU, árið 1974. Eft­ir meira en tíu ára fang­elsis­vist var hann leyst­ur úr haldi í des­em­ber það ár ásamt öðrum for­ystu­mönn­um flokks­ins. Árið eft­ir fór hann til grann­rík­is­ins Mósam­bík til að taka þátt í stríðinu gegn stjórn hvíta minni­hlut­ans í heimalandi sínu. Flokk­ur hans og ZAPU, und­ir for­ystu Nkomo, tóku hönd­um sam­an og börðust með vopn­um frá Sov­ét­ríkj­un­um, Kína, Norður-Kór­eu, Kúbu og Víet­nam.

Þegar stríðinu lauk árið 1979 litu marg­ir Afr­íku­menn á Muga­be sem þjóðhetju. Flokk­ur hans, ZANU, sigraði í þing­kosn­ing­um árið 1980 og Muga­be varð þá for­sæt­is­ráðherra. Í kosn­ing­un­um naut flokk­ur Roberts Muga­be einkum stuðnings shóna-manna í norðan­verðu land­inu. And­stæðing­ar hans í ZAPU nutu hins veg­ar fylg­is nde­bele-manna í sunn­an- og vest­an­verðu Simba­bve.

Þegar Muga­be komst til valda lofaði hann að stuðla að sátt­um milli blökku­manna og hvíta minni­hlut­ans ann­ars veg­ar og milli flokka blökku­manna hins veg­ar. Hann var þó aldrei lýðræðissinni og vildi koma á alræði eins flokks, líkt og vin­ur hans Ju­lius Ny­er­ere gerði í Tans­an­íu eft­ir að landið fékk sjálf­stæði árið 1961.

Muga­be vildi að sætt­irn­ar byggðust á því að hann yrði sjálf­ur alráður í land­inu. Þeir sem lögðust gegn því voru álitn­ir föður­lands­svik­ar­ar.

AFP

Leiðtogi ZAPU, Nkomo, fékk sæti í rík­is­stjórn­inni en hon­um var vikið úr henni árið 1982. Muga­be sakaði nde­bele-menn um að hafa lagt á ráðin um að steypa hon­um af stóli. Muga­be og banda­menn hans í hern­um notuðu þetta meinta vald­aráns­sam­særi sem átyllu til að berja á nde­bele-mönn­um í Mata­belelandi (í suðvest­ur- og vest­ur­hluta Simba­bve). Talið er að her­sveit­ir Muga­be hafi orðið 10.000 til 20.000 manns að bana á ár­un­um 1982 til 1985, að sögn Rétt­læt­is- og friðar­nefnd­ar kaþólsku kirkj­unn­ar í Simba­bve. Her­sveit­irn­ar voru einnig sakaðar um að hafa nauðgað kon­um og reynt að svelta íbúa Mata­bele­lands til und­ir­gefni.

Leiðtog­ar flokk­anna tveggja und­ir­rituðu friðarsamn­ing árið 1987 og ZAPU var inn­limaður í stjórn­ar­flokk­inn sem fékk nafnið ZANU-PF. Sama ár varð Muga­be for­seti Simba­bve og völd embætt­is­ins voru auk­in. Hann var end­ur­kjör­inn á ár­un­um 1990, 1996, 2002, 2008 og 2013. Muga­be og banda­menn hans beittu öll­um brögðum á þess­um tíma til að halda völd­un­um; ógn­un­um, of­beldi, at­kvæðakaup­um og kosn­inga­svik­um.

„Ann­ar son­ur Guðs“

Margt bend­ir til þess að Muga­be hafi borið hags­muni þjóðar­inn­ar fyr­ir brjósti í byrj­un. Þrá hans eft­ir aðdáun bar hann hins veg­ar of­urliði og hann hætti að gera grein­ar­mun á eig­in hags­mun­um og þjóðar­hag. Hann leit á sig sem þjóðhetju, gerði lítið úr hlut annarra í frels­is­bar­áttu blökku­manna í Simbvabve og þegar sótt var að hon­um sakaði hann and­stæðinga sína um landráð. Dýrk­un­in á leiðtog­an­um gekk svo langt að andstaða við hann var einnig álit­in óvirðing við sjálf­an Guð.

 Ein af skýr­ing­un­um á því að Muga­be hélt völd­un­um svo lengi er sú að stuðnings­menn hans litu á hann sem guðdóm­leg­an frels­ara blökku­manna í Simba­bve og jafn­vel allri Afr­íku. Aðdá­end­ur Muga­be skír­skotuðu meðal ann­ars til hefðbund­inn­ar anda­trú­ar shóna-manna og drógu upp þá mynd af leiðtog­an­um að hann væri arftaki kon­unga sem þáðu vald sitt frá önd­um forfeðranna. Til að mynda færðu ætt­bálka­höfðingj­ar hon­um oft gjaf­ir sem áður voru ætlaðar kon­ung­um shóna-manna. Hann fékk einnig mikið af því valdi sem höfðingjarn­ir höfðu haft í sam­fé­lagi shóna-manna, meðal ann­ars vald til að út­hluta jarðnæði.

Muga­be var einnig spyrt­ur við Guð krist­inna manna. Stuðnings­menn hans líktu hon­um meðal ann­ars við Móse sem leiddi gyðinga út úr Egyptalandi. Hann var sagður vera „nýr Móses“, „mess­ías“, „ann­ar son­ur Guðs“ og „gjöf frá Guði“ sem hafi valið hann til að frelsa blökku­menn und­an kúg­un ný­lendu­herr­anna.

Um­mæli fyrr­ver­andi bisk­ups í Har­are, Nol­berts Kunonga, lýsa vel af­stöðu margra krist­inna Simba­bvemanna til Muga­be fyrstu valda­ár hans: „Sem kirkj­unn­ar menn lít­um við hann öðrum aug­um. Að áliti okk­ar er hann spá­maður Guðs eins og Móses, send­ur til að frelsa Simba­bve­menn frá viðjum hung­urs. Guð ól hann upp til að end­ur­heimta land okk­ar og út­deila því til Simba­bvemanna. Við köll­um það lýðræði mag­ans.“

Dýrk­un­in á Muga­be sem guðleg­um frels­ara var í há­marki fyrstu valda­ár­in þegar yf­ir­lýs­ing­ar hans um sætt­ir og fyr­ir­gefn­ingu þóttu end­ur­spegla boðskap Krists. Hún minnkaði hins veg­ar eft­ir árið 1991 þegar harðnaði á daln­um en virðist hafa auk­ist aft­ur eft­ir að jarðir voru tekn­ar af hvít­um bænd­um eft­ir síðustu alda­mót til að út­deila þeim til blökku­manna. Lík­legt er að Muga­be hafi ákveðið að láta til skar­ar skríða gegn hvítu bænd­un­um til að end­ur­heimta fyrri ímynd sína sem frels­ari blökku­manna.

„Aðeins Guð get­ur komið mér frá völd­um“

Muga­be ýtti und­ir dýrk­un­ina. Hann leit svo á að hann hefði fengið vald sitt frá Guði, frek­ar en frá þjóðinni í kosn­ing­um, eins og fram kom í um­mæl­um hans eft­ir að hann og flokk­ur hans biðu ósig­ur fyr­ir stjórn­ar­and­stöðuflokkn­um Lýðræðis­hreyf­ing­unni (MDC) í þing­kosn­ing­um og fyrri um­ferð for­seta­kosn­inga árið 2008: „Aðeins Guð get­ur komið mér frá völd­um – ekki MDC, ekki Bret­ar. Við lát­um það aldrei viðgang­ast að at­b­urður eins og kosn­ing­ar hnekki sjálf­stæði okk­ar, aðeins með penn­astriki á kjör­seðil, hnekki full­veldi okk­ar og öllu því sem við börðumst fyr­ir og öllu því sem fé­lag­ar okk­ar fórnuðu lífi sínu fyr­ir. Það var Guð sem kom mér í þessa stöðu, ekki Bret­arn­ir. Þannig að það er aðeins Guð sem get­ur komið mér frá.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert