Leiðtogar vesturvelda, þeirra á meðal Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Donald Trump Bandaríkjaforseti og Angela Merkel kanslari Þýskalands, fögnuðu í dag fangaskiptum Rússlands og Úkraínu sem sögð eru marka fyrstu skrefin í átt að sátt eftir fimm ára spennu og átök ríkjanna á milli. Tvær flugvélar tóku á loft frá Moskvu og Kænugarði á sama tíma með 35 fanga innanborðs hvor.
Fjölskyldur úkraínsku fanganna afhentu þeim mörgum hverjum blómsveigi, grátandi af gleði. Meðal fanganna voru 24 úkraínskir sjómenn, kvikmyndagerðarmaðurinn Óleg Sentsof og hálfrússneski blaðamaðurinn Kíríló Visjinskíj. „Við höfum stigið fyrsta skrefið,“ sagði Volodímír Selenskíj, forseti Úkraínu, eftir að hafa tekið á móti föngunum. „Við þurfum að stíga þau öll til að ljúka þessu skelfilega stríði,“ sagði hann.
Trump sagði að um risastórt skref væri að ræða í átt að friði. Merkel sagði fangaskiptin merki um vonarneista. Macron fagnaði því sérstaklega að Sentsof hefði verið sleppt. „Við höfum alltaf staðið við bakið á honum,“ sagði hann, en Sentsof er frægasti pólitíski fangi Úkraínu. Hann var handtekinn árið 2014 og afplánaði tuttugu ára dóm fyrir að hafa skipulagt meinta hryðjuverkaárás á Krímskaga.
Allt frá kjöri Selenskíjs á þessu ári hefur spenna vaxið enn frekar milli Rússa og Úkraínumanna, en Macron hefur hvatt til þess að leiðtogar Úkraínu, Rússlands, Frakklands og Þýskalands komi saman og ræði málin í þessum mánuði.
Ríkissjónvarp Rússlands sýndi frá komu fanganna í Rússlandi, en meðal þeirra var Vladímír Tsjemak, skæruliði aðskilnaðarsinna, sem er sagður eitt lykilvitna í tengslum við árásina á flugvél Malaysia Airlines, MH17, sem var á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur og var skotin niður yfir Úkraínu.