Mörg hundruð manns hafa yfirgefið Bahamaeyjar í kjölfar eyðileggingarinnar sem fellibylurinn Dorian olli nýverið. Þúsundir bíða í örvæntingu eftir að komast burt, en mikil neyð ríkir á svæðinu. Tala látinna er komin í 43 en búast má við að hún fari hækkandi.
Hjálparstarf er í fullum gangi á sama tíma og fólk reynir að yfirgefa eyjarnar.
Ástandið er einna verst á Abaco-eyju og Grand Bahama. Í gær söfnuðust þúsundir þar saman við hafnarsvæðin og biðu eftir að vera ferjaðar á brott.
Mikillar óánægju og pirrings gætir meðal fólks sem kvartar undan glundroða og skipulagsleysi í tengslum við björgunaraðgerðirnar.
Gee Rolle gagnrýndi stjórnvöld í samtali við AP-fréttastofuna en hann sagði að aðeins dýr gætu nú búið á eyjunni.
Hubert Minnis, forsætisráðherra Bahama, ræddi við fólk sem komst lífs af við höfnina í Abaco. Hann bað fólk að sýna stillingu og lofaði að hann myndi sjá til þess að fólk kæmist frá eyjunum sér að kostnaðarlausu.