„Í ár var það alvöruhvellur“

Tré rifnuðu upp með rótum í gær þegar fellibylurinn Dorian …
Tré rifnuðu upp með rótum í gær þegar fellibylurinn Dorian reið yfir Halifax í Kanada. Ljósmynd/Aðsend

Fellibylurinn Dorian setti mark sitt á í Halifax í Kanada í gærkvöldi þegar hann fór þar yfir, en íbúar Nova Scotia, þar sem Halifax er staðsett, eru óvanir því að fá til sín fellibylji. Algengt er að þangað nái leifar af slíkum náttúrufyrirbærum, en að jafnaði er styrkurinn ekki slíkur að óveðrin falli í flokk fellibylja.

Hjónin Sveinbjörn Árnason, fasteignasali og fótboltaþjálfari, og Kristín Harpa Katrínardóttir lögreglumaður búa í Halifax og fylgdust vel með gangi mála. Sveinbjörn ræddi við mbl.is í gær í aðdraganda þess að fellibylurinn fór yfir, en þá höfðu borgarbúar margir hverjir birgt sig upp af vatni og ýmsum vistum til að undirbúa sig fyrir Dorian. Myndirnar sem fylgja með tóku hjónin á leið sinni um borgina um miðjan dag í dag.

Byggingarkrani hrundi í miðborginni

„Þetta var fellibylur. Venjulega fáum við hitabeltisstorma hingað upp eftir og leifar af fellibyljum. Í þetta sinn flokkaðist það sem fellibylur,“ segir Kristín Harpa. Sveinbjörn segir að „alltaf komi eitthvað“ í septembermánuði. „Í ár var það alvöruhvellur,“ segir hann.

Þetta tré klofnaði í miðju í íbúðargötu í Halifax þegar …
Þetta tré klofnaði í miðju í íbúðargötu í Halifax þegar Dorian fór þar yfir. Ljósmynd/Aðsend

Sunnar, þar sem styrkur fellibylsins var enn meiri, olli hann gífurlegri eyðileggingu. Á Bahamaeyjum týndu tugir lífi og margir freista þess að komast burt af eyjunum. Til marks um styrkinn syðra skal haft í huga að í Halifax, sem þó er talsvert norðar, rifnuðu tré upp með rótum. Þá hrundi byggingarkrani á fjölbýlishús í byggingu í miðborginni. Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan, en það birtist fyrst á vef CTV News. „Það er eiginlega mildi að ekki fór verr þar,“ segir Sveinbjörn. „Byggingin við hliðina er fullbyggð og þar er fjöldi íbúða. Það var mikil heppni að kraninn féll í þessa átt, en ekki á hitt húsið,“ segir Kristín Harpa.

Rýma göturnar og tengja rafmagnslínur

Í dag tók við tiltekt í borginni og hafa um 700 hermenn verið kallaðir til Halifax til þess að koma hlutunum í samt lag þar. „Maður sér að fólk er byrjað að taka til. Borgarstarfsmenn eru að tengja saman línur. Þetta er ærið verkefni,“ segir Sveinbjörn. „Það er víða rafmagnslaust ennþá. Sumstaðar virka götuljós ekki, en við erum reyndar komin með rafmagn. Það kom á klukkan ellefu í morgun,“ segir Sveinbjörn, en mörg tré hindra nú umferð á götum úti.

Mesta mildi var að byggingarkrani í Halifax skyldi ekki hrynja …
Mesta mildi var að byggingarkrani í Halifax skyldi ekki hrynja á íbúðarhús í óveðrinu, heldur aðeins hús í byggingu. Ljósmynd/Aðsend

Þegar mest lét var um helmingur íbúa í Nova Scotia án rafmagns, en ein milljón býr þar samtals. Í næstu héruðum, eyjunum New Brunswick og Prince Edwards, þurftu tugþúsundir íbúa að glíma við rafmagnsleysi. Í kvöld voru heimili 275 þúsund íbúa enn rafmagnslaus og samkvæmt upplýsingum frá rafmagnsveitu Nova Scotia var útlit fyrir að úr því yrði ekki að fullu bætt fyrr en á miðvikudag.

Íbúar hreinsuðu lauf og fallnar greinar frá ræsum svo ekki …
Íbúar hreinsuðu lauf og fallnar greinar frá ræsum svo ekki flæddi inn í hús. Í sumum tilvikum féllu tré á umferðargötur, í öðrum á hús. Ljósmynd/Aðsend

„Herinn er yfirleitt mjög góður í svona tiltekt, þeir eru snöggir og kunna að vinna,“ segir Kristín Harpa. „Borgarbúar hjálpa til eins og þeir geta og þegar stormurinn stóð sem hæst í nótt fóru margir út til að opna fyrir ræsi svo kjallarar í húsum fylltust ekki af vatni. Fólk fór út úr húsunum sínum til að færa frá lauf og greinar sem brotnuðu,“ segir hún.

Gríðarleg kyrrð í auga stormsins

Sumir slógu tvær flugur í einu höggi að sögn Sveinbjörns. „Í morgun sá ég margar svona karlrembur komnar út á götu með keðjusagir til þess að saga niður í eldivið,“ segir Sveinbjörn. „Borgarbúar hjálpast mjög mikið að við að sópa göturnar, opna ræsin og hjálpa til. Halifaxbúar eru dálítið eins og Íslendingar. Þegar á reynir snúa þeir bökum saman,“ segir Kristín Hrapa. 

Sveinbjörn Árnason, fasteignasali og fótboltaþjálfari í Halifax í Kanada.
Sveinbjörn Árnason, fasteignasali og fótboltaþjálfari í Halifax í Kanada. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem mér fannst magnaðast var þegar miðjan kom yfir okkur. Það varð allt rosalega hljótt og fallegt í smá stund þegar við vorum í miðjunni. Alveg gríðarlega fallegt. Ég hef aldrei séð jafn mikla kyrrð, það var rafmagnslaust þannig að það var engin hreyfing. Stormurinn var rosalegur rétt áður, en þegar augað kom hreyfðist ekkert,“ segir hún.

Kristín Harpa Katrínardóttir, lögreglumaður, í Halifax í Kanada t.h.
Kristín Harpa Katrínardóttir, lögreglumaður, í Halifax í Kanada t.h. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka