Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur aflýst fyrirhugðum friðarviðræðum við talíbana, en markmið þeirra var að binda enda á stríðsátök Bandaríkjanna sem hafa staðið yfir í landinu í 18 ár.
Forsetinn birti færslu á Twitter í gær og þar kom fram að hann hefði ætlað að funda með Ashraf Ghani, forseta Afganistans, og hátt settum leiðtogum talíbana í dag.
....an attack in Kabul that killed one of our great great soldiers, and 11 other people. I immediately cancelled the meeting and called off peace negotiations. What kind of people would kill so many in order to seemingly strengthen their bargaining position? They didn’t, they....
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 7, 2019
Trump aflýsti hins vegar fundinum er hann var staddur á dvalarstað forsetans í Camp David í Bandaríkjunum. Þetta gerði forsetinn eftir að talíbanar viðurkenndu að þeir hefðu staðið á bak við nýlegar árásir þar sem bandarískur hermaður lét lífið.
Bandaríkjaher réðst inn í Afganistan og steypti talíbönum af stóli árið 2001.
Talíbanar höfðu skotið skjólshúsi yfir liðsmenn hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda sem skipulögðu árásir á Bandaríkin 11. september 2001.
BBC hefur eftir heimildarmanni úr röðum talíbana, að samtökin muni nú boða til neyðarfundar til að fara yfir stöðuna.