Netflix-þáttaröðin Chernobyl hefur laðað nýja kynslóð ferðamanna að svæðinu í kringum Tsjernóbíl-kjarnorkuverið, en leiðsögumenn segja marga þeirra hafa meiri áhuga á að taka sjálfu en að fræðast um þetta versta kjarnorkuslys í sögunni.
„Þeir vilja engar frekari upplýsingar. Þeir vilja bara taka sjálfu,“ segir Yevgen Goncharenko, sem er leiðsögumaður um kjarnorkuverið. Þeir ferðamenn sem heimsækja Úkraínu leita nú gjarnan uppi staði sem koma fyrir í þáttunum og kemur það mörgum þeirra á óvart að frétta að sumir staðanna eru tilbúningur, segir Goncharenko við AFP-fréttaveituna.
Þættirnir lýsa kjarnorkuslysinu hörmulega sem varð í apríl 1986 þegar sprenging varð við prófanir í einum kjarnaofna kjarnorkuversins. Atburðurinn átti sér stað á þeim tímum þegar Úkraína var enn hluti Sovétríkjanna.
Sprengingin sendi geislavirkt ský yfir stóran hluta Evrópu og enn í dag er 30 km svæði umhverfis verksmiðjuna lokað. Búið er þó að opna fyrir umferð vaxandi fjölda ferðamanna um lítinn hluta svæðisins.
Löngu áður en þáttaröðin, sem þegar hefur hlotið 19 tilnefningar til Emmy-verðlauna, leit dagsins ljós hafði Tsjernóbíl öðlast aðdráttarafl í huga þeirra ferðamanna sem leita uppi myrkari staði sögunnar.
Undanfarið hafa nokkrar úkraínskar ferðaskrifstofur gert breytingar á ferðum sínum til að bæta þar við viðkomustöðum sem finna má í þáttunum. Fleiri ferðir eins og kajakferðir á ám umhverfis bannsvæðið eru þá í bígerð.
Oleksandr Syrota, yfirmaður Tsjernóbíl-upplýsingamiðstöðvarinnar, segir vissar ferðaskrifstofur nú bjóða upp á „skyndiferðir“ á svæðið — sem auðveldan og fljótlegan ferðakost.
Ferðamönnum virðist líka ætla að halda áfram að fjölga og í júlí undirritaði Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, sérstaka forsetatilskipun sem kveður á um frekari þróun svæðisins sem viðkomustaðar ferðamanna.
Louis Carlos, 27 ára, sem kom til Tsjernóbíl frá Brasilíu sagðist ekki hafa vitað mikið um kjarnorkuslysið áður en hann horfði á þættina. Þeir hvöttu hann hins vegar til að ferðast til Úkraínu og kynna sér málið betur.
„Ef fólk kemur hingað til að reyna að skilja og læra þá er það af hinu góða,“ segir Carlos á meðan vinir hans mynda hann við hlið kjarnorkuversins. „Þetta er hluti sögunnar,“ bætti hann við.
Ferðamönnum hefur farið fjölgandi ár frá ári og í fyrra heimsóttu 72.000 ferðamenn Tsjernóbíl. Þetta ár gera samtök ferðaþjónustunnar í landinu ráð fyrir að fjöldinn fari í 100.000.
Goncharenko, leiðsögumaður sem fer með hópa um svæðið, sagðist hafa upplifað slíka toppa áður. Einn kom eftir að bandarísk hryllingsmynd „Chernobyl Diaries“ var gefin út árið 2012. Þá hefur innsetning Tsjernóbíl í tölvuleikinn „Call of Duty“ líka haft áhrif.
„Stundum kom fólk sem hafði spilað tölvuleikinn og spurði í fullri alvöru hvar það fyndi stökkbreytta fólkið,“ rifjar hann upp.
Skömmu eftir að Chernobyl-þættirnir rötuðu fyrst á streymisveitur sættu nokkrir samfélagsmiðlanotendur gagnrýni fyrir að deila „sexí“ eða glaðlegum myndum frá draugaborginni Pripyat, en um 50.000 manns sem bjuggu þar voru fluttir á brott eftir kjarnorkuslysið.
Craig Mazin, einn höfunda og framleiðanda þáttanna, sá ástæðu til að gera athugasemd við slíkt á Twitter.
„Já ég hef séð myndirnar sem eru í deilingu,“ skrifaði hann í júní. „Ef þið komið þangað, hafið þá vinsamlegast í huga að þarna átti hörmulegur atburður sér stað. Hagið ykkur í samræmi við það og sýnið þeim sem þjáðust og færðu fórnir virðingu.“
Yaroslav Yemelianenko, yfirmaður samtaka leiðsögumanna í Tsjernóbíl, samsinnir því að svæðið sé komið í tísku hjá ferðamönnum. Hann telur að í stað þess að einblína á hörmungarnar sem þar áttu sér stað eigi yfirvöld í Úkraínu að kynna bannsvæðið sem stað hugleiðslu um slysið.
„Við verðum að kynna það, tala um það og laða að fólk,“ sagði hann.
Sumir ferðamannanna, líkt og hinn slóvenski Jan Mavrin, fullyrða að þeir komi til að votta þeim sem létust virðingu sína.
„Maður verður að bera vissa virðingu fyrir svona stað,“ sagði Mavrin um leið og hann myndaði Parísarhjól í yfirgefnum skemmtigarði í Pripyat.
„Maður þarf að sýna hógværð og á ekki að ganga um og taka hluti,“ bætti hann við.
AFP segir vitað til þess að ferðamenn, bæði þeir sem koma í skipulagðar ferðir og þeir sem stelast þangað inn ólöglega, hafi tekið hluti með sér sem minjagripi af bannsvæðinu.
„Jafnvel við sem vorum íbúar Pripyat leyfum okkur ekki að gera slíkt,“ segir Syrota sem starfar í upplýsingamiðstöð Tsjernóbíl. „Og svo erum við hissa þegar við sjáum þá á eBay.“
Hann sagði erfitt að ímynda sér hvað gæti komið út úr áætlun stjórnvalda um að fjölga ferðamönnum í Tsjernóbíl og ítrekaði að rýmið væri takmarkað.
„Við höfum enga reynslu af því að hverju þetta getur orðið,“ bætti hann við.