Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að bandarísk stjórnvöld verði að vera varkár varðandi það að taka á móti eftirlifendum frá Bahamaeyjum eftir að fellibylurinn Dorian gekk yfir eyjarnar í síðustu viku. Meðal þeirra geti verið „mjög slæmt fólk“.
Í gær var komið í veg fyrir að nokkur hundruð manns færu um borð í ferju frá Bahama á leið til Flórída vegna þess að fólkið var ekki með tilskilið landvistarleyfi í Bandaríkjunum. Bandarískur landamæravörður segir að um mistök hafi verið að ræða.
Staðfest hefur verið að 43 hafi farist þegar Dorian gekk yfir Bahamaeyjar en óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka verulega.
Sameinuðu þjóðirnar hafa sagst telja um 70.000 manns þurfa á húsaskjóli og matvælum að halda á Bahamaeyjum eftir Dorian.
Trump sagði í samtali við fréttamenn fyrir utan Hvíta húsið í dag að allir sem kæmu til Bandaríkjanna þyrftu að vera með alla pappíra á hreinu. Hann sagði að íbúar Bahama hefðu lent í miklum vandræðum vegna fólks sem hefði komið þangað óvelkomið.
„Ég vil ekki hleypa fólki til Bandaríkjanna sem átti ekki að fá að koma til Bahamaeyja. Þeirra á meðal er vont fólk,“ sagði Trump sem benti á að vonda fólkið væri í glæpagengjum og eiturlyfjasalar.
Bent er á í frétt AFP að forsetinn hafi gert allt sem í hans valdi stendur til að stöðva flæði flóttafólks til landsins frá því hann tók við embætti forseta fyrir þremur árum. Sér í lagi fólks frá löndum Mið-Ameríku.