Þingmenn á breska þinginu höfnuðu í kvöld tillögu Boris Johnsons forsætisráðherra um að þingkosningar fari fram um miðjan október. Fyrri tillögu þess efnis var hafnað í síðustu viku. 293 þingmenn greiddu atkvæði með þingkosningum en 46 á móti. Aukinn meirihluta þurfti svo að tillagan yrði samþykkt.
Að atkvæðagreiðslunni lokinni var þinginu slitið.
Þingið kemur næst saman eftir rúman mánuð, 14. október nánar tiltekið, en Elísabet Bretadrottning samþykkti í síðasta mánuði tillögu Johnsons þess efnis. Áætlað er að Bretar gangi úr Evrópusambandinu tveimur vikum eftir að þingið kemur saman, eða 31. október, óháð því hvort útgöngusamningur hafi verið undirritaður.
Þingmenn í stjórnarandstöðunni hafa gagnrýnt þá ákvörðun Johnsons að slíta þinginu en stjórnvöld segja fullkomlega eðlilegt sem og tímabært að gera það. Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, segir að flokkurinn muni gera allt til að koma í veg fyrir að Bretland gangi úr ESB án samnings. „Við munum ekki styðja tillögu um kosningar fyrr en ljóst er að það gerist ekki,“ sagði hann á þinginu í dag. Corbyn segist vilja kosningar en á sama tíma komast hjá útgöngu án samnings.
Stjórnvöld hafa sagt að þau ætli ekki að óska eftir frekari frestun á útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu þrátt fyrir að lög þess efnis hafi verið samþykkt fyrir helgi. „Ég mun ekki biðja um frekari frest,“ segir Johnson.
Leiðtogar Evrópusambandsins koma saman 17. október og verður það líklega síðasti möguleiki Johnsons til að semja um útgöngu Breta, annars er útlit fyrir að ríkið gangi samningslaust úr sambandinu 31. október.