Jafna þorp rohingja við jörðu

Flóttamannabúðir rohingja í Bangladess.
Flóttamannabúðir rohingja í Bangladess. AFP

Heilu þorpin í Rakhine-héraðinu í Búrma (Mijanmar) þar sem áður bjuggu rohingjamúslimar hafa nú verið jöfnuð við jörðu og þess í stað reist geymsluhúsnæði fyrir lögreglu, stjórnarbyggingar og flóttamannabúðir.

BBC greinir frá þessu og segir að í ferð sem farin var á vegum stjórnvalda í Búrma hafi blaðamenn séð fjögur svæði þar sem öryggisbyggingar hafi verið reistar á slóðum þar sem gervihnattamyndir sýni að rohingjabyggðir hafi áður verið.

Stjórnvöld í Búrma neita því hins vegar að byggt hafi verið yfir þorp rohingja í Rakhine-héraði.

Árið 2017 flúðu rúmlega 700.000 rohingjar aðgerðir búrmíska hersins, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst sem skólabókardæmi um þjóðernishreinsanir. Stjórnvöld í Búrma hafa hins vegar alla tíð neitað því að her landsins hafi staðið fyrir umfangsmiklum drápum á rohingjum og jafnframt sagst vera tilbúin að taka aftur við hluta þeirra sem flúðu.

Tilraun sem gerð var í síðasta mánuði til að koma rohingjaflóttamönnum aftur til Búrma mistókst hins vegar þegar enginn þeirra 3.450 sem stjórnvöld í Búrma höfðu samþykkt féllst á að snúa til baka. Sagði fólkið óvissu um hvað biði þess, m.a. hvort það myndi njóta ferðafrelsis eða fá ríkisborgararétt, meðal ástæðna fyrir því að það vildi ekki snúa til baka. Eins hefðu búrmísk stjórnvöld ekki tekið ábyrgð á blóðbaðinu árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert