Neitar að afhenda FBI gögn vegna MAX-vélanna

Boeing 737 MAX farþegaþotur á flugvélastæði í nágrenni verksmiðju Boeing …
Boeing 737 MAX farþegaþotur á flugvélastæði í nágrenni verksmiðju Boeing í Washington. Vélarnar hafa verið kyrrsettar frá því í mars á þesu ári. AFP

Fyrrverandi starfsmaður bandaríska Boeing-flugvélaframleiðandans, sem átti stóran þátt í þróun á 737 Max-farþegaþotunum, hefur neitað að afhenda bandarísku alríkislögreglunni (FBI) gögn sem hún hefur óskað eftir í tengslum við rannsókn á tveimur mannskæðum flugslysum.

Dagblaðið Seattle Times greinir frá þessu og segir starfsmanninn Mark Forkner bera við fimmtu grein stjórnarskrárinnar. Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur stefnt honum til að veita upplýsingar, en saksóknarar ráðuneytisins eru að skoða hönnun og vottanir flugvélarinnar.

Seattle Times segir beitingu fimmtu greinar stjórnaskrárinnar stundum túlkaða sem viðurkenningu á sök, en ekki sé hins vegar algengt að ákvæðinu sé beitt til að neita að afhenda skjöl. Þetta geti þó verið til vitnis um eins konar samningsþreifingar milli saksóknara og lögfræðinga Forkners.

Forkner starfaði hjá Boeing á árabilinu 2011-2018 og segir Seattle Times hann oft hafa lýst yfir áhyggjum af tímapressu vegna vinnu við MAX-vélarnar. Segir blaðið hann stundum hafa leitað til kollega í flugheiminum eftir aðstoð.

MAX-vélarnar hafa verið kyrrsettar frá því í mars á þessu ári í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa.

Rannsókn bandarískra yfirvalda á orsökum flugslysanna beinist m.a. að svonefndu MCAS-stýrikerfi sem talið er hafa átt þátt í að vélarnar hröpuðu. Er Forkner sagður hafa á sínum tíma lagt til við bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) að MCAS-stýrikerfið yrði ekki meðal þess sem tekið yrði fyrir í leiðbeiningahandbók flugmanna. FAA féllst á þessa uppástungu eftir að hafa skoðað málin og voru rökin sem færð voru fyrir því þau að hugbúnaðurinn starfaði í bakgrunninum og væri hluti af flugstýrikerfi vélarinnar. MCAS-búnaðurinn reyndist síðar geta ýtt nefi vél­ar­inn­ar mun lengra niður en fyrri kerfi Boeing höfðu gert.

Þá fékk Boeing einnig samþykki FAA fyrir því að flugmenn fengju klukkutíma kennslu í spjaldtölvu á mismuninum milli MAX-vélanna og fyrri tegunda af 737-farþegaþotum og var MCAS-búnaðurinn hvergi nefndur í þeirri yfirferð.

Boeing hefur hins vegar sagt að MCAS hafi einungis verið einn hlekkur í keðjunni og búnaðurinn hafi verið hannaður á grundvelli staðla sem notaðir hafi verið árum saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert