Farþegaþota með 337 farþega innanborðs þurfti að breyta um stefnu í febrúar á þessu ári þegar flugmaðurinn hellti kaffi yfir stjórnborðið.
BBC hefur þetta eftir rannsóknarmönnum bresku flugslysanefndarinnar AAIB. Atvikið átti sér stað þegar vélin, sem var af gerðinni Airbus A330-243, var á leiðinni frá Frankfurt í Þýskalandi til Cancun i Mexíkó. Þess í stað þurfti vélin að koma inn til lendingar í Shannon á Írlandi eftir að svonefndur ACP-sjálfstýringarbúnaður flugmannsins tók að bráðna og reykur kom upp í stjórnklefanum.
Þurftu flugmennirnir jafnframt að grípa í súrefnisgrímurnar, en engin meiðsl urðu á fólki.
BBC segir AAIB ekki tilgreina hvaða flugfélag hafi verið þar á ferð, en Flight Safety Foundation, sem eru óháð samtök sem hafa eftirlit með flugi, segja þetta hafa verið vél Condor Airlines sem hafi verið í leiguflugi fyrir Thomas Cook.
Flugslysanefndin segir flugstjórann hafa verið að fylgjast með aðstoðarflugmanninum á flugi vélarinnar yfir Atlantshafinu þegar þeim var fært kaffi. Engin lok voru á glösunum og segir rannsóknarnefndin það hafa verið viðtekna venju hjá flugfélaginu. Flugstjórinn setti því næst bolla sinn á borðið þar sem hann datt skömmu síðar. Mestur vökvinn fór í kjöltu flugstjórans, en lítið magn fór á stjórnborðið og leiddi til samskiptaörðugleika og bilana.
Ákvörðun var því tekin um að láta vélina fljúga til Shannon þar sem hún lenti án erfiðleika.
AAIB segir flugfélagið í kjölfarið hafa breytt starfsháttum sínum og lok séu nú á drykkjarglösum á öllum flugleiðum og starfsfólk sé minnt á að nota þau.