Purdue semur við kröfuhafa um bætur

Frank Huntley, sem barðist við ópíóðafíkn, gengur hér með pillumanninn, …
Frank Huntley, sem barðist við ópíóðafíkn, gengur hér með pillumanninn, beinagrind gerða úr tómum OxyContin og Methadon pilluglösum fyrir framan stjórnarbyggingar í Washington. AFP

Sátt hefur náðst í máli bandaríska lyfjafyrirtækisins Purdue Pharma, sem framleiðir verkjalyfið OxyContin, um milljarða dollara bætur til þeirra þúsunda kröfuhafa sem hafa höfðað mál gegn fyr­ir­tæk­inu. BBC greinir frá.

Purdue Pharma, sem er í eigu hinnar vellauðugu Sackler-fjölskyldu, hefur verið sakað um að kynda undir ópíóðafaraldrinum í Bandaríkjunum með framleiðslu og markaðssetningu á ópíóðaverkjalyfjum á borð við OxyContin.

Að sögn BBC felur samkomulagið í sér að Purdue verður ekki meðal þeirra fyrirtækja sem verða látin svara til saka fyrir rétti í Ohio í október í fyrstu réttarhöldum fyrir alríkisdómstól vegna ópíóðafaraldurins.

Ríki sem ekki eiga aðild að málaferlunum nú kunna þó enn að eiga eftir að höfða mál gegn Purdue, en í þeim hópi eru m.a. Connecticut, Iowa, Massachusetts, Nevada, New Jersey, New York, Pennsylvanía, Norður-Karólína og Wisconsin að því er AP-fréttaveitan greinir frá.

Höfuðstöðvar Purdue Pharma í Connecticut. Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá …
Höfuðstöðvar Purdue Pharma í Connecticut. Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að samkomulagið feli í sér að Sackler fjölskyldan muni segja sig frá fyrirtækinu, áður en það verði látið lýsa yfir gjaldþroti, verði svo tekið til gjaldþrotaskipta og að því loknu endurreist. AFP

Sackler segi sig frá fyrirtækinu og Purdue lýst gjaldþrota

Eru upphæðin sem samið er um nú talin kunna að vera hæsta fjárhæð sem ópíóðaframleiðandi hefur nokkru sinni greitt, en rúmlega 2.000 kröfuhafar standa að baki málshöfðuninni, m.a. helmingur ríkja Bandaríkjanna, sveitarstjórnvöld nokkurra ríkja og héraða og ættbálkar bandarískra frumbyggja.

Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að samkomulagið feli í sér að Sackler-fjölskyldan segi sig frá fyrirtækinu áður en það verði látið lýsa yfir gjaldþroti, verði svo tekið til gjaldþrotaskipta og að því loknu endurreist.

Allur hagnaður af fyrirtækinu verði þá notaður til að greiða kröfuhöfum og er upphæðin talin vera á bilinu 10-12 milljarðar dollara. Þá verður fyrirtækinu einnig gert að gefa fé til stofnana sem sinna fíklum og þeim sem hafa tekið of stóran skammt. Loks er gert ráð fyrir að Sackler-fjölskyldan greiði að minnsta kosti þrjá milljarða dollara af fjölskylduauði sínum.

Washington Post segir samninginn vera talinn ná til 23 ríkja og stjórnvalda í um 2.000 sveitarfélögum, bæjum og borgum. Samningurinn nái því ekki því takmarki Purdue að taka til Bandaríkjanna allra og hafa raunar margir saksóknarar heitið því að halda áfram að reyna að koma Purdue fyrir rétt.

„Þetta samkomulag er löðrungur í andlit hvers þess sem hefur þurft að grafa ástvini vegna eyðileggingar og græðgi þessarar fjölskyldu,“ hefur BBC eftir Josh Shapiro, lögfræðingi Pennsylvaníuríkis. „Það gerir Sackler-fjölskyldunni kleift að ganga burt frá þessu sem milljarðamæringar án þessa viðurkenna neina sök.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert