Drónaárás hefur áhrif á 5% olíuframleiðslu heimsins

Reykur frá olíustöðinni í Abqaiq í Saudi Arabíu.
Reykur frá olíustöðinni í Abqaiq í Saudi Arabíu. AFP

Saudi Armaco, eitt stærsta olíufyrirtæki heims, þarf að leggja niður helming framleiðslu sinnar, sem telur um 5% af heildarolíuframleiðslu heimsins, vegna tveggja drónaárása á olíuhreinsunarstöð og olíulind í eigu félagsins. Félagið er í eigu stjórnvalda í Saudi-Arabíu.

Innanríkisráðherra landsins hefur staðfest að árás hafi verið gerð á tvö olíumannvirki í landinu og í tilkynningu frá Armaco kemur fram að slökkvistarf sé í gangi við Abqaiq og Khurais olíustöðvarnar.

Uppreisnarmenn Hútímanna hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum, en það sýnir hversu þróuð vopn uppreisnarmennirnir hafa komið sér upp. Yahia Sarie, talsmaður Hútí-fylkingarinnar, sagði í sjónvarpstilkynningu að 10 drónar hafi verið sendir í árásirnar. Þá sagði hann að árásum á Saudi-Arabíu yrði haldið áfram ef stríðið í Jemen myndi halda áfram, en það hefur nú staðið yfir í á fimmta ár.

Samkvæmt Wall street journal þarf að skrúfa fyrir framleiðslu á fimm milljón tunnum af hráolíu á dag, en það jafnast á við 5% af olíuframleiðslu heimsins og helming allrar framleiðslu í Saudi-Arabíu.

Í borgarastríðinu í landinu takast á stjórnvöld og stjórnarherinn gegn Hútímönnum. Stjórna þeir síðarnefndu norðvesturhluta landsins. Meðan Saudi-Arabía er einn helsti stuðningsmaður stjórnvalda, þá er talið að Íran styðji Hútímenn. Þannig kristallist í átökunum víglínur þessara tveggja stórvelda arabaheimsins, þar sem takast á shia-múslimar (Hútar og Íran) við sunni-múslima (stjórnvöld í Jemen og Saudi-Arabía).



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka