Íranir neita ásökunum Bandaríkjanna um að vera ábyrgir fyrir drónaárásum sem gerðar voru á stærstu olíuvinnslustöð heims í Sádi-Arabíu í gær, en árásarnir hafa áhrif á helming allrar framleiðslu landsins og gætu haft áhrif á olíubirgðastöðu heimsins.
Í gær sakaði Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Íran um árás sem hefði áhrif á orkuframboð heimsins. Upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytis Íran sagði í sjónvarpsviðtali í dag að ásakanir Pompeos væru tilgangslausar. Sagði hann allt slíkt tal frekar hljóma eins og tilraunir leyniþjónustu til að skemma orðspor Írans og undirbúa jarðveg fyrir frekari aðgerðir gegn landinu. Þá hefur utanríkisráðherra landsins einnig gert lítið úr ásökunum Pompeos.
Hassan Rouhani, forseti Íran, sakaði stjórnvöld í Bandaríkjunum um að reyna að kenna Íran um stríðið í Jemen, sem hefur verið í gangi á fimmta ár, meðan Sádi-Arabía, sem væri einn helsti bandamaður Bandaríkjanna, hefði reglulega staðið fyrir loftárásum þar.
Yfirmaður íranska hersins sagði hins vegar að herinn væri tilbúinn í stríð og að fjöldi bandarískra herstöðva væri staðsettur innan 2.000 kílómetra frá Íran, en eldflaugar Írans eru með slíka drægni.