Bandaríkin reiðubúin að grípa til aðgerða

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Bandaríkjamenn eru reiðubúnir að grípa til hernaðaraðgerða í kjölfar drónaárásarinnar á olíuvinnslustöðvar í Sádi-Arabíu um helgina að sögn Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, en bandarísk stjórnvöld telja Íran á bak við árásirnar.

Fram kemur í frétt AFP að Trump hafi lýst þessu yfir í morgun en þetta sé í fyrsta sinn sem hann hafi gert því skóna að Bandaríkin gætu gripið til vopna til þess að bregðast við árásunum sem haft hafa í för með sér að olíuframleiðsla Sádi-Arabíu hefur dregist saman um helming og leitt til verulegra hækkana á heimsmarkaðsverði á olíu.

Stjórnvöld í Íran hafa alfarið hafnað ásökunum Bandaríkjamanna um að þau beri ábyrgð á árásunum. Uppreisnarmenn Húta hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum en Bandaríkjastjórn hefur vísað því á bug. Meðal annars á þeim forsendum að drónarnir hafi ekki komið frá þeim svæðum sem þeir halda sig á í Jemen heldur úr norðurátt.

Trump sagði á Twitter að bandarísk stjórnvöld teldu sig vita hver sökudólgurinn væri og væru reiðubúin að grípa til aðgerða þegar það hefði verið staðfest. Beðið væri eftir upplýsingum frá stjórnvöldum í Sádi-Arabíu um það hverjir þau teldu ábyrga fyrir árásunum varðandi það til hvaða aðgerða yrði gripið í framhaldinu.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt að ekkert bendi til þess að árásirnar hafi verið gerðar frá Jemen. Bandaríkjamenn myndu sjá til þess í samstarfi við bandamenn sína að tryggja framboð olíu á mörkuðum heimsins og að Íran axlaði ábyrgð á árásunum. Bandaríkjamenn telja meðal annars að gervihnattamyndir staðfesti sekt Írana. Íranir hafa stutt við bakið á uppreisnarmönnum Hútúa í Jemen en Sádi-Arabía hefur stutt stjórnvöld í landinu. 

Ráðamenn í Kína hvöttu í morgun bandarísk og írönsk stjórnvöld til yfirvegunar á meðan ekki hefði farið fram rannsókn á málinu og niðurstaða lægi ekki fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert