Gervihnattamyndir af árásunum

Gervihnattamynd frá NASA
Gervihnattamynd frá NASA AFP

Bandarísk yfirvöld hafa birt gervihnattamyndir og segja þær og upplýsingar frá leyniþjónustunni sýna fram á að Íran standi á bak við árásirnar á olíuvinnslustöðvarnar í Sádi-Arabíu. Írönsk yfirvöld neita því aftur á móti alfarið að hafa komið þar nærri en uppreisnarsveitir Húta, sem njóta stuðnings Írana, hafa lýst ábyrgð á árásunum. 

Vegna þessa hefur heimsmarkaðsverð á olíu hækkað og samdráttur í olíuframleiðslu er talinn nema um 5%.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, sakaði Írana um að standa á bak við árásirnar um helgina en lagði ekki fram nein gögn máli sínu til stuðnings. Í gær skrifaði síðan forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, að væntanlega hefði verið um hernaðaraðgerð að ræða en sakaði ekki Írana beint um aðild.

Ónafngreindir bandarískir embættismenn hafa síðan tjáð sig við blaðamenn New YorkTimes, ABC og Reuters um árásirnar. Meðal annars að drónarnir sem notaðir voru hafi komið úr vestri og norðvestri, ekki af svæðum sem Hútar ráða yfir í Jemen en það landsvæði er suðvestur af olíustöðvunum sem ráðist var á. 

AFP

Í NYT kemur fram að árásirnar hafi verið gerðar með drónum og eldflaugum en ekki hafi allar hæft skotmarkið, Abqaiq- og Khurais-olíuvinnslusvæðið. Samkvæmt ABC veit Trump að Íran hafi staðið á bak við árásirnar þrátt fyrir að halda því ekki fram. 

Frétt BBC

Fastlega er gert ráð fyrir því að Sádi-Arabar muni ná í dag að koma af stað að minnsta kosti þriðjungi af olíuframleiðslunni sem stöðvaðist um helgina. Vegna árásanna á Abqaiq og Khurais stöðvaðist stór hluti af olíuframleiðslu ríkisins sem er helsti olíuframleiðandi heims. Í kjölfarið hækkaði heimsmarkaðsverð á hráolíu verulega en það er heldur farið að lækka að nýju. Nemur hækkunin nú um 10%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert