Lést átta árum eftir að hafa sýkst af E. coli

Hamborgararnir sem Nolan og 14 önnur börn neyttu og sýktust …
Hamborgararnir sem Nolan og 14 önnur börn neyttu og sýktust af E. coli í kjölfarið árið 2011 voru seldir í stórmarkaðnum Lidl í norðurhluta Frakklands. AFP

Tíu ára gamall franskur drengur sem sýktist af E. coli-bakteríu fyrir átta árum lést á laugardag. Nolan Moittie var á meðal 15 barna sem sýktust af E. coli árið 2011 eftir að hafa neytt hamborgara frá fyrirtækinu SEB sem seldir voru í stórmörkuðum Lidl. Fyrrverandi forstjóri SEB var dæmdur í tveggja ára fangelsi árið 2017 vegna málsins. 

Nolan var fatlaður og þurfti að gangast undir nokkrar aðgerðir sökum E. coli-sýkingarinnar, sem var af gerðinni O157, en veikindi hans vegna sýkingarinnar voru mun alvarlegri en hjá hinum börnunum sem smituðust. 

Fólk smit­ast af E. coli í gegn­um menguð mat­væli eða vatn, með beinni snert­ingu við dýr eða snert­ingu við mengaðan úr­gang dýra. Bakt­erí­an kemst þannig um munn og niður í melt­ing­ar­veg og fram­leiðir eit­ur­efni sem get­ur valdið blóðugum niður­gangi og í al­var­leg­um til­fell­um nýrna­bil­un og blóðleysi.

Lögmaður Moittie-fjölskyldunnar, Florence Rault, segir fráfall Nolan vera „endalokin á kvalafullri þrautagöngu.“ Veikindin stigmögnuðust með árunum, útlimir hans afmynduðust og beinin urðu brothættari. Hann gekkst undir margar aðgerðir og var hættur að geta nærst, kyngt, tjáð sig eða hreyft án aðstoðar.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert