Trump vill forðast stríð við Íran

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa birt myndir úr gervihnöttum sem þau …
Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa birt myndir úr gervihnöttum sem þau segja að sýni fram á að stjórnvöld í Íran beri ábyrgð á loftárásum sem gerðar voru á olíulindir í Sádi-Arabíu á laugardag. AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa birt myndir úr gervihnöttum sem þau segja að sýni fram á að stjórnvöld í Íran beri ábyrgð á loftárásum sem gerðar voru á olíulindir í Sádi-Arabíu á laugardag. Talsmaður hersins í Sádi-Arabíu fullyrðir að írönsk vopn hafi verið notuð í árásunum. 

Trump sagði í samtali við fréttamenn í kvöld að allt liti út fyrir að Íran bæri ábyrgð á árásunum en að stjórnvöld í Washington biðu endanlegrar niðurstöðu rannsóknar. Trump fullyrti að Bandaríkin myndu „að sjálfsögðu koma Sádum til bjargar yrðu þeir fyrir árás“ en á sama tíma vill hann forðast stríð við Íran. 

Stjórn­völd í Íran hafa al­farið hafnað ásök­un­um Banda­ríkja­manna um að þau beri ábyrgð á árás­un­um. Upp­reisn­ar­menn Húta hafa lýst yfir ábyrgð á árás­un­um en Banda­ríkja­stjórn hef­ur vísað því á bug, sem og Sádar. Meðal ann­ars á þeim for­send­um að drón­arn­ir hafi ekki komið frá þeim svæðum sem þeir halda sig á í Jemen held­ur úr norðurátt.

Árásirnar hafa haft í för með sér að olíu­fram­leiðsla Sádi-Ar­ab­íu hef­ur dreg­ist sam­an um helm­ing og leitt til veru­legra hækk­ana á heims­markaðsverði á olíu.

Trump sagði á Twitter um helgina að banda­rísk stjórn­völd teldu sig vita hver söku­dólg­ur­inn væri og væru reiðubú­in að grípa til aðgerða þegar það hefði verið staðfest. Beðið væri eft­ir upp­lýs­ing­um frá stjórn­völd­um í Sádi-Ar­ab­íu um það hverja þau teldu ábyrga fyr­ir árás­un­um varðandi það til hvaða aðgerða yrði gripið í fram­hald­inu. 

Önnur stórveldi hafa ekki tjáð sig um árásirnar, það er að segja hver stendur að baki þeim. Martin Griffiths, sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Jemen, kom fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í dag og sagði hann ekki fullljóst hver hefði staðið að árásunum en ljóst er að þær ýta undir frekari hættu á átökum í heimshlutanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert