Robert O'Brien nýr þjóðaröryggisráðgjafi

Robert C O'Brien, sérstakur fulltrúi forsetans í gíslatökumálum hjá utanríkisráðuneyti …
Robert C O'Brien, sérstakur fulltrúi forsetans í gíslatökumálum hjá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, hefur verið skipaður þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar. AFP

Robert O'Brien hefur verið skipaður nýr þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta en hann tilkynnti um skipunina á Twitter. 

O'Brien tekur við af John Bolton sem lét af störfum í síðustu viku. O'Brien er fjórði öryggisráðgjafi Trump frá því að hann tók við embætti í ársbyrjun 2017. 

Síðasta árið hefur O'Brien starfað sem sérstakur fulltrúi forsetans í gíslatökumálum hjá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. „Ég hef unnið vel og lengi með Robert. Hann mun standa sig vel!“ segir Trump í færslu sinni. 

Bolton og Trump bar ekki saman um starfslokin. Trump sagðist hafa rekið Bolton en sjálfur sagði Bolton að hann hefði boðist til að segja upp störfum. 

Hvað sem því líður má rekja starfslokin meðal annars til aðferða Trumps að tak­ast einn á við leiðtoga ríkja á borð við Rúss­land og Norður-Kór­eu og nú síðast talib­ana í Af­gan­ist­an og lýsa sig vilj­ug­an til samn­inga við þess­ar þjóðir og það féll Bolt­on illa í geð. Hef­ur Bolt­on enda aldrei farið leynt með þá skoðun sína að sýna þurfi hernaðarmátt Banda­ríkj­anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert