Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, hefur beðist afsökunar á búningi sínum á gala-balli á vegum einkaskóla sem hann fór á fyrir nærri tveimur áratugum. Time Magazine hefur komist yfir ljósmynd frá ballinu sem sýnir Trudeau skarta dökkbrúnum andlitsfarða, eða svokölluðu „brownface“.
Í yfirlýsingu sinni vegna atviksins segist Trudeau sjá mikið eftir atvikinu og að hann hefði átt að vita betur.
Ljósmyndin var tekin á gala-balli West Point Grey Academy í Vancouver árið 2001, en Trudeau kenndi við skólann á þessum tíma. Hún þykir mjög vandræðaleg fyrir Trudeau, sem er talinn afar framsækinn í stefnumálum.
Exclusive: Justin Trudeau wore brownface at 2001 ‘Arabian Nights’ party while he taught at a private school, Canada's Liberal Party admits https://t.co/j3UobfYNIF
— TIME (@TIME) September 18, 2019
Í samtali við blaðamenn eftir að ljósmyndin var birt útskýrði Trudeau að hann hefði klætt sig upp sem Aladdín fyrir ballið og litað andlitið á sér og hendur dökkar. „Það hefði ég ekki átt að gera,“ sagði Trudeau. Þá viðurkenndi Trudeau að hafa einnig málað hörundið dökkt fyrir hæfileikakeppni í menntaskóla.
Trudeau sækist eftir endurkjöri í kosningunum sem fram fara í Kanada 21. október næstkomandi.