Allsherjarverkfall fyrir loftslagið hafið

„Mín jörð logar, hvað með þína?“ eru á meðal skilaboða …
„Mín jörð logar, hvað með þína?“ eru á meðal skilaboða mótmælenda sem krefja stjórnvöld um aðgerðir. AFP

Allsherjarverkfall vegna loftslagsvárinnar er hafið og markar verkfallið upphaf alþjóðlegrar loftslagsviku sem tileinkuð er baráttu fyrir aðgerðir gegn loftslagsvánni. 

Börn í Ástralíu og á Kyrrahafi tóku af skarið, lokuðu námsbókunum á hádegi að staðartíma og örkuðu út úr skólastofunum til að krefjast aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum. Rúmt ár er síðan Greta Thunberg, sænskur aðgerðasinni, mótmæti fyrir framan sænska þingið. Síðan þá hafa ungmenni um heim allan efnt til loftslagsverkfalla í hádeginu á föstudögum undir yfirskriftinni Föstudagar fyrir framtíðina.

Í dag verður efnt til samræmdra aðgerða og mótmælt allt frá Sydney til Sao Paolo og munu ungmennin sýna frá aðgerðum sínum á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #climatestrike. Fullorðna fólkið er hvatt til að taka þátt og slást í hóp unga fólksins og krefjast tafarlausra og skilvirkra aðgerða til að hamla gegn hamfarahlýnun jarðar. 

„Allt skiptir máli, það sem þið gerið skiptir máli,“ sagði Thunberg í myndskeiðsskilaboðum sem hún birti áður en fyrstu mótmælin hófust formlega. 

Ungmenni undirbúa mótmælin í New York, þar sem búist er …
Ungmenni undirbúa mótmælin í New York, þar sem búist er við að yfir milljón ungmenni komi saman í dag til að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. AFP

Yfir 5.000 loftslagsverkföll eru fyrirhuguð í yfir 150 löndum í dag. Fjölmennustu mótmælin verða að öllum líkindum í New York þar sem búist er við að yfir milljón nemendur við 1.800 skóla taki þátt. 

BBC mun flytja fréttir af allsherjarverkfallinu í allan dag. 

Í Reykjavík hefur verið boðað til aðgerða klukkan 17. Safnast verður saman við Hallgrímskirkju og gengið niður á Austurvöll þar sem tónlist og ávörp verða flutt. Alþjóðlegri loftslagsviku lýkur 27. september með öðru allsherjarverkfalli fyrir loftslagið.

Ungmenni í Sydney taka þátt í allsherjarverkfalli fyrir loftslagið.
Ungmenni í Sydney taka þátt í allsherjarverkfalli fyrir loftslagið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert