Bandaríkin senda herlið til Sádi-Arabíu

Aðstoðarvarnarmálaráðherra Sádi-Arabíu, prins Khalid bin Salman og varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Mark …
Aðstoðarvarnarmálaráðherra Sádi-Arabíu, prins Khalid bin Salman og varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Mark Esper, á fundi í Pentagon í síðasta mánuði. AFP

Bandaríkin hyggjast á næstunni senda liðsauka til Sádi-Arabíu í kjölfar árása á tvær stórar olíuvinnslustöðvar í landinu um síðustu helgi. Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir liðsaukann sendan að ósk stjórnvalda í Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. 

Um 1.000 bandarískir hermenn eru í Sádi-Arabíu en ekki hefur verið gefið upp hversu margir verða sendir til viðbótar. Joe Dunford, formaður herforingjaráðs Bandaríkjahers, segir liðið ekki vera fjölmennt, hermennirnir skipti hundruðum frekar en þúsundum. 

Bandaríkin saka Íran um að bera ábyrgð á árásunum en stjórn­völd í Íran hafa ít­rekað hafnað öll­um ásök­un­um um aðild sína og for­seti Írans, Hass­an Rou­hani, seg­ir Jemena á bak við árás­irn­ar og að með þeim vilji árás­ar­menn­irn­ir vara við frek­ari hernaðaraðgerðum vegna hernaðar Sádi-Ar­aba, með stuðningi Banda­ríkja­manna, í Jemen.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti nýjar refsiaðgerðir gegn Íran í gær en á sama tíma segist hann vilja forðast hernaðarátök. Refsiaðgerðirnar, sem Trump segir þær umfangsmestu hingað til, lúta einkum að Seðlabanka Írans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka