Þingmenn Evrópuráðsþingsins (PACE) spurðu ráðamenn í rússneska sjálfstjórnarlýðveldinu Tétsníu út í pyntingar og fangelsisvist samkynhneigðra karla, réttindi kvenna og minnihlutahópa í sjaldgæfri heimsókn til landsins.
„Við sjáum skýrslur þar sem tekin eru fram alvarleg brot gegn konum og samkynhneigðum; meðal annars fjallað um ólöglegar fangelsisvistanir,“ sagði Evrópuráðsþingmaðurinn Frank Schwabe.
Hann ræddi málið við ráðamenn í Mosvku og Grozny, höfuðborg Tétsníu.
„Þetta er nokkuð sem við getum ekki sætt okkur við,“ sagði Schwabe í samtali við AFP.
Schwabe fundaði ekki með Ramzan Kadyrov, forseta Tétsníu, eins og áætlað hafði verið. Hann sagði þó að aðrir fundir hefðu verið ágætir þótt ráðamenn í Tétsníu sinntu ekki réttindum minnihlutahópa.
Síðustu ár hefur verið greint frá því að samkynhneigðir karlmenn hafi flúið landið vegna ofsókna og var Schwabe að fylgja eftir skýrslum sem gerðar hafa verið um málið.
Kadyrov hefur áður sagt að engin mannréttindabrot séu framin í sjálfstjórnarhéraðinu. Hann ítrekaði það fyrir heimsókn Schwabes og sagði slíkar fréttir tilbúning.
„Hérna kvænast menn konum og konur giftast mönnum. Það hefur verið þannig í mörg þúsund ár og verður þannig áfram, sama hvað vesturveldin segja okkur,“ sagði Kadyrov.