Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og frambjóðandi í forvali demókrata fyrir forsetakosningar á næsta ári, krefst þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti birti þegar í stað uppskrift af símtali hans við forseta Úkraínu.
Starfsmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna hefur lagt fram formlega uppljóstrunarkvörtun vegna samtalsins þar sem Trump er sagður hafa þrýst á Volodymyr Zelenskyy Úkraínuforseta að afla upplýsinga um Biden gegn fyrirheitum um fyrirgreiðslu.
Trump hefur neitað ásökuninni og sagði það heimskulegt að halda því fram að hann myndi segja eitthvað óviðeigandi við annan þjóðarleiðtoga þegar hann vissi að mörg eyru legðu við hlustir.
Biden fordæmir framgöngu Trumps í málinu og segir hana ótvírætt dæmi um spillingu sem „skaðar og lítillækkar stjórnkerfi okkar og stofnanir þess með því að gera þær að verkfærum í persónulegum pólitískum bardögum“. Krefst hann að uppskrift símtalsins verði birt sem fyrst og þannig geti bandaríska þjóðin dæmt um það sjálf hvort um spillingu sé að ræða eða ekki.
Demókratar á þingi reyni að fá kvörtunina afhenta en yfirmaður leyniþjónustunnar hefur ekki látið hana af hendi. Þingmennirnir hafa rannsakað hvort Trump og lögmaður hans, Rudy Giuliani, reyndu að þrýsta á ríkisstjórn Úkraínu að rannsaka Biden og son hans, Hunter Biden, sem starfaði í gasfyrirtæki í Úkraínu, í þeim tilgangi að grafa upp upplýsingar sem gætu komið sér illa fyrir Biden í kosningabaráttunni sem fram undan er.
Biden segir jafnframt að Trump ætti að sjá sóma sinn í að skipa yfirmanni leyniþjónustunnar að hætta að hamla rannsókn málsins og afhenda Bandaríkjaþingi kvörtunina.