Rétt rúm vika er frá því að dróna- og eldflaugaárásir voru gerðar á tvær olíuvinnslustöðvar ríkisolíufélags Sádi-Arabíu, Aramco, sem hefur haft áhrif á heimsmarkaðsverð á olíu en sólarhring eftir árásirnar minnkaði olíuframleiðsla Sádi-Arabíu um helming.
Fréttamenn BBC fengu að kynna sér aðstæður á olíuvinnslustöðvunum í Abaqaiq og Khurais, sem eru skammt frá höfuðstöðvum Aramco í Dhahran. Frank Gardner, fréttamaður BBC, segir ástandið minna á smærri útgáfu af Chernobyl-kjarnorkuslysinu.
Viðhald og viðgerðir hafa staðið yfir stanslaust frá því um síðustu helgi og unnið er allan sólarhringinn. Yfirvöld í Sádi-Arabíu fullyrða að olíuvinnslan verði komin á fullan skrið að nýju í lok mánaðarins. Það sem þau geta hins vegar ekki fullyrt er hvort hægt verði að koma í veg fyrir aðra árás.
Áhrif árásanna eru ekki eingöngu efnahagsleg, síður en svo. Bandaríkin saka Íran um að bera ábyrgð á árásunum en stjórnvöld í Íran hafa ítrekað hafnað öllum ásökunum um aðild sína og forseti Írans, Hassan Rouhani, segir Jemena á bak við árásirnar og að með þeim vilji árásarmennirnir vara við frekari hernaðaraðgerðum vegna hernaðar Sádi-Araba, með stuðningi Bandaríkjamanna, í Jemen.