Leiðtogar Frakklands, Þýskaland og Bretlands sammæltust um það í yfirlýsingu í dag að Íranar bæru ábyrgð á árásunum á olíuvinnslustöðvarnar tvær í Sádi-Arabíu fyrr í mánuðinum. Ríkin taka þar með undir röksemdir Bandaríkjamanna.
Þau Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Angela Merkel Þýskalandskanslari og Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sögðu í sameiginlegri yfirlýsingu sinni eftir fund á allherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York að ljóst væri að Íran bæri ábyrgð á árásunum.
„Það er engin önnur skýring,“ segir í yfirlýsingu þeirra. Ríkin þrjú – sem öll eru enn aðilar að kjarnorkusamningnum við Íran – sögðu að komast ætti að diplómatískri lausn í málinu og skoruðu á írönsk stjórnvöld að fara sér að engu óðslega og „forðast frekari ögranir og átök“.