Brúðkaupsferð sem var frestað daginn eftir brúðkaupið, brúðkaupsveislur á erlendri grundu og farþegar sem hótel tekur í gíslingu vegna skuldar. Þetta er meðal þeirra þeirra rauna sem viðskiptavinir ferðaþjónustufyrirtækisins Thomas Cook hafa lent í í kjölfar þess að fyrirtækið var lýst gjaldþrota á þriðja tímanum í nótt.
Um hálf milljón farþega víða um heim eru nú strandaglópar í víða um heim og fjöldi manns bíður víða á flugvöllum eftir fregnum af mögulegri heimferð. Bresk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau muni fljúga með þá farþega heim sem áttu bókað far til Bretlands, en staða viðskiptavina dótturfyrirtækja Thomas Cook í Evrópu en óljósari.
Ferðamálayfirvöld á Kýpur, þar sem 15.000 manns eru nú strandaglópar, hefur lýst gjaldþrotinu sem „öflugum jarðskjálfta“ og „flóðbylgju“ fyrir ferðamannaiðnaðinn þar í landi og í ýmsum löndum, m.a. Tyrklandi hafa yfirvöld lýst yfir áhyggjum af útistandandi skuldum Thomas Cook við þarlend hótel.
Gíslatökuástand skapaðist raunar í Túnis í gærkvöldi, þegar dvalarleyfisstaðurinn Les Orangers hélt gestum í gíslingu og neitaði þeim um að yfirgefa hótelið fyrr en þeir hefðu greitt skuld ferðaþjónustufyrirtækisins. Farþegarnir sem höfðu þegar greitt Thomas Cook fyrir ferðina neituðu og var starfsfólk breska sendiráðsins í Túnis að endingu kallað til til að leysa úr deilunni, að því er Manchester Evening News greinir frá.
Laura Schofield átti að fljúga í brúðkaupsferð til Lanzarote í dag með nýbökuðum eiginmanni sínum en þau giftu sig í Hull í gær. Parið hefur verið saman í átta ár, en aldrei farið til útlanda saman. CNN hefur eftir Schofield að þau hafi verið „eyðilögð“ að frétta að ekkert yrði af brúðkaupsferðinni.
„Við eigum eins árs barn og langaði í afslappandi brúðkaupsferð,“ sagði Schofield. „Að komast svo að þessu morguninn eftir brúðkaupið olli okkur verulegu uppnámi.“
Layton Roche og Natalie Wells sem ætla að gifta sig á grísku eyjunni Kos á föstudag segja brúðkaupsveisluna vera í uppnámi þar sem bæði þau og tæplega 50 gestir þeirra höfðu bókað farið í gegnum Thomas Cook.
Þau höfðu eytt fleiri mánuðum í að finna rétta staðinn fyrir sig og gesti sína. Þegar þau vöknuðu svo í morgun til að gera sig klár í flug dagsins fréttu þau að fluginu hefði verið aflýst.
„Tveggja ára undirbúningur og hellingur af fé er farinn í vaskinn,“ hefur Guardian eftir Roche. „Draumar eru brostnir.“
Nokkrir úr hópnum, m.a. eitt barna þeirra, voru þegar komnir út og parinu tókst að finna annað flug út fyrir sig í dag og greiða fyrir það rúmar 600.000 kr. Það munu hins vegar ekki allir brúðkaupsgestirnir geta gert og áætla þau nú að gestirnir verði 15 í stað 50.
Sérstök Facebook-síða hefur nú verið stofnuð með væntanlegum brúðhjónum sem sjá brúðkaupsplön sín í uppnámi eftir gjaldþrotið og skiptist fólk þar á ráðleggingum.
Ruth Morse, sem hafði ætlað að gifta sig á strönd á Kýpur í október, var sömuleiðis í uppnámi. „Ég er eyðilögð,“ sagði hún á Twitter. „Við erum búin að vera að skipuleggja þetta í tvö ár. Allt frá því að bróðir minn var myrtur.“
Fleiri brúðkaup eru nú í óvissu. Þannig ætluðu þau Andrew og Sharon að gifta sig í Las Vegas í næsta mánuði að viðstöddum nánustu vinum og ættingjum. Þau greindu einnig frá því á Twitter að þau áform væru nú í uppnámi þar sem þau hefðu ekki efni á að panta aðra ferð fyrir hópinn.
Gary Thickbroom, sem var í hópi farþega sem kom með síðustu vél Thomas Cook sem lenti í morgun, segir þau hafa áttað sig á því þegar vélin var á leið í loftið frá Flórída að fyrirtækið væri á leið í gjaldþrot. „Það varð svo ljóst þegar flugstjórinn þakkaði okkur fyrir öll árin á undan,“ hefur BBC eftir Thickbroom.
Eiginkona hans Diane segir áhöfnina greinilega hafa verið í uppnámi og tár hafi sést víða þegar þau yfirgáfu vélina. „Þar beið starfsfólk á flugvellinum til beggja hliða með tárvot augu tilbúið að taka á móti áhöfninni,“ segir hún.