Rekja flugslys til hönnunargalla

Starfsmenn fyrir framan Boeing 737 MAX-flugvél í mars síðastliðnum í …
Starfsmenn fyrir framan Boeing 737 MAX-flugvél í mars síðastliðnum í Washington. AFP

Indónesísk yfirvöld vísa til þess að mistök við hönnun Boeing 737 Max 8 farþegaþotu indó­nes­ísku flugfélagsins Lyon Air og gáleysi hafi valdið því að vélin hrapaði í Indó­nes­íu í októ­ber í fyrra með þeim afleiðingum að allir um borð létust.

Skýrsla vegna slyssins verður formlega kynnt í nóvember. Samkvæmt Wall Street Journal er mistökum flugmanna sem og viðhaldsvandræðum kennt um að 189 manns fórust.

Boeing 737 MAX-farþegaþotur hafa verið kyrrsettar um heim allan eftir flugslysið í Indónesíu og Eþíópíu í mars á þessu ári. Líkt og í slysinu í Indónesíu fórust allir um borð í slysinu í Eþíópíu. 

Bráðabirgðaniðurstöður rannsakenda vegna slysanna beindist að svo­nefndu MCAS-stýri­kerfi sem talið er hafa átt þátt í að vél­arn­ar hröpuðu.

Banda­rísk flug­mála­yf­ir­völd (FAA) halda til Indónesíu á næstu dögum til að ræða skýrsluna en þar eru alls talin upp hundrað atriði sem höfðu áhrif á það að vél Lyon Air brotlenti.

„Boeing heldur áfram að styðja við rannsókn málsins,“ var meðal þess fáa sem talsmaður flugvélaframleiðandans lét hafa eftir sér við AFP.

Bandarísk flugmálayfirvöld og Sam­göngu­ör­ygg­is­stofn­un Banda­ríkj­anna (NTSB) neituðu að tjá sig um skýrsluna.

Fram kemur í frétt Wall Street Journal að Samgönguöryggisstofnun mun á næstu dögum senda frá sér ráðleggingar sem snúa að bættri þjálfun flugáhafna og flugmanna. 

Steve Dickson, yfirmaður FAA, mun funda með kollegum sínum í dag þar sem fyrirhugaðar breytingar Boeing á 737 MAX-farþegaþotunum og væntanleg endurkoma þeirra í háloftin verða meðal annars rædd. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka