Þúsundir Skandinava strandaglópar vegna gjaldþrots

Farþegar á flugvellinum á Mallorca sem höfðu átt pantað far …
Farþegar á flugvellinum á Mallorca sem höfðu átt pantað far heim í dag með Thomas Cook. AFP

Um 600.000 manns eru nú strandaglópar víða um heim eftir gjaldþrot breska ferðaþjónustufyrirtækisins Thomas Cook. Í hópi þeirra eru 9.000 Norðmenn og 3.000 Svíar sem höfðu flogið út með Ving, norsku dótturfyrirtæki Thomas Cook.

Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá og segir 85.000 Norðmenn hafa verið búna að panta sér ferð með Ving næsta árið og að sögn sænska ríkisútvarpsins SVT eru 3.000 Svíar nú einnig staddir erlendis eftir að hafa flogið með Ving.

Gjaldþrotið hefur sömuleiðis áhrif á 1.400 farþega dönsku Spies-ferðaskrifstofunnar að sögn danska ríkisútvarpsins DR, þar sem ferðaskrifstofan nýtti sér leiguflug Thomas Cook og eru viðskiptavinir hennar ósáttir við samskiptaleysi.

„Ég hef reynt að ná í Spies í morgun til að fá að vita hvernig við vorum bókuð og hvort við getum fengið aðra ferð, en við höfum enn ekki fengið nein svör frá Spies. Engan póst, ekkert,“ segir Thor Fredriksen, sem átti að fljúga til Kýpur í dag. „Ég veit að það er ekki gott að sjá þetta fyrir, en önnur fyrirtæki hafa verið að upplýsa farþega frá því klukkan þrjú í nótt, m.a. Ving í Noregi. Það finnst mér að Spies hefði líka átt að gera þannig að við hefðum raunhæfan möguleika á að finna eitthvað annað.“

140.000 strandaglópar þýskra dótturfyrirtækja

140.000 manns sem flogið höfðu með Öger Tours og Neckermann, þýskum dótturfyrirtækjum Thomas Cook, eru einnig strandaglópar, en þýska flugfélagið Condor, sem var í eigu Thomas Cook, flýgur áfram samkvæmt áætlun að því er fram kom í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.

„Condor heldur áfram að starfa sem þýskt fyrirtæki. Til að koma í veg fyrir gjaldþrot hefur Condor sótt um lán með ríkisábyrgð sem er nú til skoðunar,“ segir í yfirlýsingunni. 

Bresk yfirvöld hafa þegar greint frá því að öllum sem áttu bókað flug með Thomas Cook heim til Bretlands verði tryggt flug og á það við um 150.000 af öllum þeim 600.000 sem nú eru strandaglópar víða um heim. Þannig eru um 50.000 Bretar nú strandaglópar á Grikklandi og 15.000 á Kýpur.

Misjafnt er hins vegar eftir löndum og dótturfyrirtækjum hver staða annarra farþega er, en að sögn NRK mun SAS til að mynda sjá um að fljúga heim með þá Norðmenn sem gjaldþrotið hefur áhrif á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert