Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur viðurkennt að hafa nefnt málefni Joe Bidens, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda, og sonar hans í símtali sem hann átti við Volodymr Zelensky, forseta Úkraínu, í sumar.
BBC greinir frá og segir Trump nú standa frammi fyrir ásökunum um að hann hafi þrýst á Úkraínuforseta að taka Biden til rannsóknar sem hann neitar hins vegar að hafa gert.
Viðurkenning Trumps á símtalinu er sögð hafa kynt undir kröfu hjá þingmönnum Demókrataflokksins um að forsetinn verði ákærður fyrir embættisglöp og sagði Adam Schiff, öldunungadeildarþingmaður og formaður njósnanefndar þingsins, Trump með þessu kunna að hafa farið yfir mörkin. Schiff hefur til þessa verið mótfallinn því að forsetinn yrði ákærður.
Sjálfur hefur Biden hvatt til þess að símatal Trumps við Zelensky verði rannsakað frekar.
Hunter Biden, sonur Joe Biden, var forstjóri gasfyrirtækis í Úkraínu á þeim tíma sem faðir hans gegndi embætti varaforseta Bandaríkjanna í stjórnartíð Baracks Obama og átti Biden þá töluverðan hlut að máli varðandi stefnu Bandaríkjanna í málefnum Úkraínu.
Mikið hefur verið deilt um málið undanfarna daga eftir að Washington Post greindi frá því í síðustu viku að starfsmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna hefði lagt fram formlega uppljóstrunarkvörtun eftir að Trump hefði lofað ónefndum erlendum þjóðhöfðingja einhverju sem hann mátti ekki lofa.
Fjölmiðlar vestanhafs telja að loforð Trumps tengist Úkraínu en forsetinn ræddi við Zelenskyy í lok júlí og starfsmaður leyniþjónustunnar kvartaði síðan yfir forsetanum 12. ágúst.
Demókratar á þingi hafa reynt að fá kvörtunina afhenta en yfirmaður leyniþjónustunnar hefur ekki látið hana af hendi.