26 látnir í óeirðum í Indónesíu

Í óeirðunum var kveikt í byggingum. Hér sjást verslanir í …
Í óeirðunum var kveikt í byggingum. Hér sjást verslanir í Wamena sem lítið er eftir af. AFP

Að minnsta kosti 26 létust og 70 særðust í óeirðum í Papúa-héraði í Indónesíu í gær. Mannfall varð í tveimur aðskildum atvikum en aðgerðasinnar segja lögreglu hafa beint skothríð að námsmönnum. Guardian greinir frá þessu.

Fjórir létust, þar á meðal hermaður, og nokkrir meiddust þegar indónesískar öryggissveitir hófu skothríð á námsmenn í gær. Skothríðin varð í kjölfar mótmæla gegn rasisma í háskóla í höfuðborg Papúa, Jayapura. 

Í öðru atviki sem varð í borginni Wamena létust alla vega 22 einstaklingar og 65 meiddust. Það var í óeirðum sem kviknuðu út frá því að kennari kallaði menntaskólanemanda apa. 

Lögreglan beitti táragasi og byssuskotum

Hundruð námsmanna höfðu safnast saman í Cenderawasih-háskólanum í Jayapura snemma á mánudag þegar yfirvöld skipuðu þeim að hörfa. Tvö vitni sögðu að nemendurnir hefðu verið nýbúnir að stíga út úr nokkrum strætóum og trukkum þegar óeirðirnar hófust. 

„Skyndilega fór lögreglan að hlaupa hratt í átt að námsmönnunum og ég sá að lögreglan var að skjóta í áttina til þeirra. Lögreglan beitti einnig táragasi,“ sagði eitt vitnanna sem gaf einungis upp sitt fyrra nafn, Martin.

Gjöreyðilagður lögreglubíll sem eyðilagður var í átökunum í Wamena.
Gjöreyðilagður lögreglubíll sem eyðilagður var í átökunum í Wamena. AFP

„Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna lögreglan hóf skothríðina. Námsmennirnir voru háværir og kölluðu eitthvað að lögreglunni en það er alvanalegt,“ sagði Martin.

„Lögreglan skaut að námsmönnum á hlaupum og leyfði fólki sem er ekki frá Papúa að ógna íbúum Papúa með beittum vopnum,“ sagði hitt vitnið sem einnig gaf einungis upp sitt fyrra nafn, Markus. 

Segir námsmenn hafa byrjað átökin

Yfirvöld smöluðu námsmönnunum saman og var þeim haldið í lögreglutrukkum, að sögn vitnanna. 

Eko Daryanto, talsmaður hersins í Papúa, sagði múg reiðra námsmanna hafa ráðist á hermann og nokkra lögreglumenn með sveðjum og steinum. Það hafi neytt lögregluna til þess að bregðast við með því að skjóta á námsmennina. 

Einn hermaður lést á leiðinni á spítala. Að minnsta kosti fimm lögreglumenn voru alvarlega særðir. 

Í Wamena hófust óeirðir eftir að kennari lét rasísk ummæli falla um menntaskólanema frá Papúa. Aðgerðasinnar segja að óeirðirnar hafi verið friðsamlegar þangað til lögreglan og herinn hófu skothríð. 

Reiði íbúa Papúa vegna rasisma sem þeir segjast hafa setið lengi undir hefur vaxið eftir ítrekuð áköll héraðsins um aðskilnað frá Indónesíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert