Búin að flytja 10% farþega aftur til Bretlands

Þreyttir strandaglópar Thomas Cook á flugvellinum í Dóminíska lýðveldinu.
Þreyttir strandaglópar Thomas Cook á flugvellinum í Dóminíska lýðveldinu. AFP

Bresk yfirvöld hafa nú náð að flytja aftur til Bretlands 10% þeirra 150.000 bresku farþega sem urðu strandaglópar er ferðaþjónustufyrirtækið Thomas Cook varð gjaldþrota í gær.

Fólksflutningarnir eru þeir umfangsmestu sem bresk yfirvöld hafa staðið í á friðartímum. Hafa bresk flugmálayfirvöld (CAA) sagst vonast til að koma 16.500 manns til viðbótar heim í dag.

Gjaldþrot fyrirtækisins olli því að um 600.000 viðskiptavinir þess og dótturfyrirtækja þess urðu strandaglópar á vinsælum ferðamannastöðum víða um heim, m.a. í Cancun og Las Vegas og á eyjunum Kos og Lanzarote.

Hafa launagreiðslur til stjórnenda fyrirtækisins ratað í fjölmiðla í dag sem segja reiði ríkja víða vegna bónusgreiðslna og hárra launa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert