Domingo syngur ekki aftur í Metropolitan-óperunni

Spænski tenórinn Placido Domingo mun aldrei aftur koma fram í …
Spænski tenórinn Placido Domingo mun aldrei aftur koma fram í Metropolitan-óperunni í New York. AFP

Óperusöngvarinn Placido Domingo, sem sakaður hefur verið um kynferðislega áreitni gegn fjölda kvenna, hefur fallist á ósk stjórnenda Metropolitan-óperunnar í New York um að hætta þar störfum. Frá þessu greinir óperan í yfirlýsingu í kvöld. Domingo segir í yfirlýsingu að hann hafi sjálfur óskað eftir því að fá að stíga til hliðar og kveðst aldrei ætla að koma þar fram aftur.

Sama hvor útgáfan er rétt, þá ber þessi tíðindi nokkuð brátt að, þar sem Domingo, sem er 78 ára gamall, átti að syngja í verkinu Macbeth, sem frumsýnt verður í Metropolitan-óperunni annað kvöld.

Samkvæmt frétt New York Times um málið tók óperan ákvörðun um að biðja Domingo að víkja eftir að vaxandi fjöldi starfsmanna óperunnar hafði lýst yfir áhyggjum af því að Domingo myndi taka þátt í verkinu.

Domingo hefur verið fastagestur í óperum hjá Metropolitan, en hann kom fyrst fram í óperuhúsinu er hann var 27 ára gamall og hefur sungið þar á hverju ári síðan.

Í yfirlýsingu Domingos sem AFP vitnar til kemur fram að söngvarinn, sem oft er kallaður „konungur óperunnar“, sé ósammála þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar. Söngvarinn segist jafnframt áhyggjufullur yfir því að tíðarandinn í dag sé slíkur að fólk sé fordæmt án dóms og laga, en tuttugu konur hafa sakað Domingo um kynferðislega áreitni.

Domingo hefur ekki komið fram í Bandaríkjunum síðan ásakanirnar gegn honum komu fram í byrjun ágústmánaðar og höfðu Fíladelfíuorkestran og San Fransiskó-óperan þegar hætt við að halda sýningar með Domingo innanborðs.

Þá rannsakar óperuhúsið í Los Angeles ásakanir á hendur honum og hugðist Metropolitan-óperan fylgjast með gangi þeirrar rannsóknar áður en ákvörðun yrði tekin um framtíð hans þar innanhúss. Nú liggur ákvörðun þó fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert