Bandaríska sjónvarpsstöðin Fox News hefur beðið Gretu Thunberg afsökunar á ummælum sem álitsgjafi lét falla um hana í beinni útsendingu í gærkvöldi. Michael Knowles, sem kom inn sem álitsgjafi í þáttinn The Story with Martha MacCallum í gærkvöldi sagði Thunberg „andlega veikt sænskt barn“ sem væri verið að misnota í pólitískum tilgangi.
Orð Knowles hafa vakið þónokkra reiði og farið víða á samfélagsmiðlum, en Greta Thunberg er eins og flestir vita með Asperger-heilkenni. Christopher Hahn, sem einnig var álitsgjafi í þættinum á Fox í gær, skammaði Knowles fyrir að rægja Thunberg með þessum hætti, eins og sjá má í myndskeiðinu hér að neðan.
Af Vísindavefnum: Hvað er Asperger-heilkenni?
Thunberg hefur verið nokkuð til umræðu í Bandaríkjunum síðustu daga, en í gær flutti hún innblásna ræðu um loftslagsmál á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York.
Holy shit
— jordan (@JordanUhl) September 23, 2019
Michael Knowles of Daily Wire just called Greta Thunberg a "mentally ill Swedish child."@ChristopherHahn tore into him pic.twitter.com/Ki0cK6W3Ev
Fox News brást við skömmu eftir að þátturinn fór í loftið með því að segja ummælin algjörlega óásættanleg. „Við biðjum Gretu Thunberg og áhorfendur okkar afsökunar,“ sagði í yfirlýsingu frá stöðinni.
Donald Trump hefur einnig verið gagnrýndur í dag fyrir að hæðast að Thunberg í tísti í gærkvöldi.