Mikil óvissa ríkir hjá starfsfólki ferðaþjónustufyrirtækisins Thomas Cook sem varð í gær gjaldþrota eftir 178 ára rekstrarsögu. Starfsmennirnir óttast m.a. að fá ekki greidd laun og sumir hafa lent í því að verða strandaglópar erlendis eftir að fyrirtækið féll.
Thomas Cook var sett í greiðslustöðvun í gærmorgun eftir að viðræður um að afla fjár til að standa undir rekstrinum runnu út í sandinn með þeim afleiðingum að 22.000 starfsmenn á heimsvísu eru í óvissu, þar af 9.000 störf í Bretlandi.
Peter Fankhauser, forstjóri Thomas Cook, hefur beðið starfsmennina og viðskiptavini afsökunar.
BBC hefur rætt við fyrrverandi starfsmenn fyrirtækisins og spurt með hvaða hætti gjaldþrotið hefur áhrif á þá. Á meðal þeirra eru hjónin Hayley, sem er 36 ára, og Dan, sem er 41 árs. Dan hafði starfað sem flugmaður hjá Thomas Cook í 19 ár og Hayley verið flugfreyja í 15 ár. Dan segir að þau hafi fengið tölvupóst frá fyrirtækinu aðfaranótt mánudags, eða skömmu áður en greint var opinberlega frá falli félagsins.
Haley, sem gaf ekki upp fullt nafn, segir í samtali við BBC, að þau hafi verið eyðilögð í fyrstu eftir að fréttirnar bárust. „Nú hefur komið í ljós að það hafi lengi legið fyrir hvert stefndi.“
Þau segja að fyrirtækið hafi brugðist þeim og þau upplifi svik.
Þau áttu von á 8.000 pundum í laun um næstu mánaðamót, en upphæðin samsvarar um 1,2 milljónum kr. Það er hins vegar ólíklegt að þau fái greidd laun á réttum tíma.
Haley segir að Dan hafi tekið á sig yfirvinnu þar sem þau hafi farið til Flórída í frí í maí sl., en nú hafi þau ekki efni á að greiða skuldina.
Hjónin, sem eiga tvær ungar dætur, segjast eiga sparifé sem nýtist til að greiða inn á húsnæðislánið og eigi góða að sem geti veitt þeim aðstoð til að byrja með til að greiða upp skuldir. Haley segir að Dan verði nauðsynlega að finna sér nýja vinnu fyrir jólin.
Thomas Cook hefur um langa hríð átt í vandræðum með aukna samkeppni frá ferðaskrifstofum á netinu sem og lággjaldaflugfélögum á borð við EasyJet og Jet2 sem bjóða upp á pakkaferðir fyrir fólk. Auk þess kjósa sífellt fleiri ferðamenn að skipuleggja frí sín sjálfir.