Krafa er uppi um að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segi af sér embætti eftir að hæstiréttur landsins komst að þeirri niðurstöðu að ólögmætar forsendur hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun hans að senda breska þingið heim.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur hvatt Johnson til þess að íhuga stöðu sína í kjölfar niðurstöðu hæstaréttar. Hefur hann sakað forsætisráðherrann um að vanvirða lýðræðið og að Verkamannaflokkurinn myndi aldrei gera slíkt.
Jo Swinson, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, segir niðurstöðuna sýna enn eina ferðina að Johnson sé ekki hæfur til þess að gegna embætti forsætisráðherra. Forystumenn Skoska þjóðarflokksins hafa að sama skapi kallað eftir afsögn Johnsons.
Forsætisráðherrann hefur þvertekið fyrir að segja af sér embætti vegna dómsins en hann er staddur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í Bandaríkjunum. Hefur hann ákveðið að hraða heimferð sinni til Bretlands vegna málsins.
Hins vegar hafa ekki allir gagnrýnt Johnson og hafa þess í stað beint spjótum sínum að hæstaréttinum eða Dominic Cummings, helsta ráðgjafa forsætisráðherrans. Nigel Farage, leiðtogi Brexitflokksins, hefur kallað eftir afsögn Cummings.
Meðal annars er fjallað um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.