Kevin Burns, forstjóri rafrettnafyrirtækisins Juul, hefur sagt starfi sínu lausu í kjölfar aukinnar umræðu um skaðsemi rafrettna og gagnrýni á markaðssetningu varanna. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að öllum auglýsingum á vörum Juul verði hætt í Bandaríkjunum.
KC Crosthwaite, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá tóbaksrisanum Altria, tekur við stöðu forstjóra af Burns, en Altria á 35% hlut í Juul.
Um 530 manns hafa veikst eftir notkun á rafrettum í Bandaríkjunum, samkvæmt upplýsingum frá bandarískum heilbrigðisyfirvöldum. Eitt slíkt tilvik er til rannsóknar hér á landi.
Bann við notkun bragðefna í rafrettum tók gildi í borginni Los Angeles nýverið og hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti heitið því að bragðefni í rafrettum verði bannað á landsvísu. Þá hefur smásölurisinn Walmart ákveðið að hætta að selja rafrettur og varning þeim tengdan.
Rafrettan var sett á markað undir þeim formerkjum að hún væri skárri en sígarettureykingar. Bragðefnin sem eru sett í rafrettuna innihalda nikótín sem er ávanabindandi efni og eru sögð höfða sterkt til ungmenna.
Alls nota yfir 3,6 milljónir bandarískra ungmenna rafrettur.